154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

616. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Friðrik Friðriksson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um tekjuskatt, er snúa að náttúruhamförum í Grindavíkurbæ.

Með frumvarpinu er lagt til að heimild launagreiðanda í Grindavíkurbæ til að fresta staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds verði framlengd. Jafnframt kveður frumvarpið á um framlengingu til loka aprílmánaðar 2024 á ákvæði til bráðabirgða í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, þess efnis að sérstök eftirgjöf vaxta og verðbóta af skuldum manna utan atvinnurekstrar, vegna nóvember og desember 2023 og janúar 2024, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, teljist ekki til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árunum 2024 og 2025, að því gefnu að um sé að ræða vexti og verðbætur vegna áhvílandi lána á íbúðarhúsnæði.

Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um málið og fékk á sinn fund þá aðila sem sendu inn umsögn vegna málsins. Annars vegar var um að ræða fulltrúa frá Grindavíkurbæ og Verkalýðsfélagi Grindavíkur og hins vegar fulltrúa Samtaka atvinnulífsins en þeir aðilar tóku heils hugar undir frumvarpið. Nánar er greint frá því í nefndaráliti að venju.

Til frekari glöggvunar fyrir þingmenn er vert að reifa stuttlega innihald frumvarpsins en því er ætlað að milda neikvæð áhrif á lausafjárstöðu rekstraraðila vegna jarðhræringa og eldsumbrota sem hófust í og við Grindavíkurbæ 10. nóvember 2023. Meiri hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd telur áríðandi að frumvarp þetta nái fram að ganga sem fyrst enda feli það í sér aðgerðir sem ætlað er að koma til móts við þarfir Grindvíkinga og rekstraraðila í bænum vegna þess hættu- og óvissuástands sem þar ríkir. Jafnframt telur meiri hlutinn mikilvægt að úrræðin verði endurskoðuð tímanlega og metið hvort þörf sé á frekari framlengingu á gildistímum.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til breytingar á frumvarpinu sem þó eru ekki stórvægilegar. Annars vegar er lögð til breyting á c-lið 1. gr. frumvarpsins en þar er kveðið á um heimild launagreiðanda sem frestað hefur greiðslum til eindaga 15. janúar 2025 að sækja um að fresta þeim greiðslum þannig að þær skiptist á fjóra gjalddaga og verða gjalddagar og eindagar þeirra 15. september, 15. október, 17. nóvember og 15. desember 2025. Umsókn um aukinn frest skal beina til Skattsins eigi síðar en 31. janúar 2025. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins sagði um ákvæðið að eðlilegast væri að fresturinn yrði framlengdur áður en eindagi gengi í garð. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn því til að sú breyting verði gerð að umsóknir um aukinn frest skuli berast eigi síðar en 10. janúar 2025 til Skattsins og skal Skatturinn afgreiða umsókn fyrir 15. janúar 2025. Þar af leiðandi yrðu umsóknir afgreiddar fyrir eindaga 15. janúar 2025.

Hins vegar er lögð til orðalagsbreyting á 3. mgr. c-liðar 1. gr. frumvarpsins. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins var bent á að ekki verði litið til arðsúthlutana, kaupa á eigin hlutum á árinu 2025 eða úttekta eigenda innan ársins 2025 við afgreiðslu umsókna um framlengingu á fresti enda yrði að afgreiða umsóknir í upphafi árs 2025. Meiri hlutinn fellst á það með ráðuneytinu að óvenjulegt sé að skilyrða heimild til frestunar á greiðslum við atriði sem ekki eru komin til framkvæmda og gerir því viðeigandi orðalagsbreytingar sem ekki hafa í för með sér efnislega breytingu á skilyrðum.

Þá eru lagðar til minni háttar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Af framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Guðrún Sigríður Ágústsdóttir og Inger Erla Thomsen.

Umrætt frumvarp er aðeins eitt skref af mörgum til að koma til móts við samfélagið í Grindavík sem eins og alþjóð veit hefur orðið fyrir gríðarlegum áföllum. Önnur úrræði snúa að launastyrk, leigustyrk, rekstrarstyrk og svo kaupum á húsnæði í Grindavík svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru allt úrræði sem eru gríðarlega mikilvæg. Hef ég nú gert grein fyrir þessu skrefi og framlagningu þess og vænti þess að málið fái framgang sem fyrst. Það verður ekki ofsögum sagt að mikið hefur verið lagt á Grindvíkinga og raunar Suðurnesjamenn alla á undanförnum mánuðum og misserum og ég vænti þess að þetta ágæta frumvarp fái snögga afgreiðslu hér í þinginu og málefnalega umræðu eins og verið hefur um þau frumvörp sem snúa að aðstoð við Grindavík, Grindvíkinga og atvinnulífið þar.