154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[16:00]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (rekstrarleyfisskyld gististarfsemi), þskj. 1032, 690. mál. Með frumvarpinu er kveðið á um að rekstrarleyfisskyld gististarfsemi skuli vera í samþykktu atvinnuhúsnæði. Verði frumvarpið að lögum verður því ekki lengur heimilt að gefa út leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði eins og núgildandi lög heimila og eitthvað hefur borið á. Til að tryggja að umrædd breyting nái markmiði sínu er einnig með frumvarpinu kveðið á um skyldu til að tilgreina á aðaluppdráttum húsnæðis að húsnæðið tilheyri notkunarflokki 4 samkvæmt byggingarreglugerð þegar sótt er um rekstrarleyfi fyrir gististarfsemi. Með þessu verða skýrari skil á milli íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis þegar kemur að gistingu og horft til raunverulegrar notkunar húsnæðis.

Frumvarpið er hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar á framboðshlið íbúðarhúsnæðis á suðvesturhorni landsins og liður í því að mæta eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Með frumvarpinu er þannig þrengt að þeim skilyrðum sem gilda um útgáfu rekstrarleyfis til gististarfsemi og tryggt að það verði í samþykktu atvinnuhúsnæði. Til framtíðar er líklegt að þessi breyting leiði til þess að rekstraraðilar breyti starfsemi sinni til samræmis við lögin og að framboð íbúðarhúsnæðis muni í kjölfarið aukast. Rétt er að geta þess að frumvarpið hefur ekki áhrif á skráningarskylda heimagistingu til 90 daga, þ.e. gistingu sem heimilar einstaklingum að leigja út heimili sitt í allt að 90 daga á hverju almanaksári.

Virðulegur forseti. Með frumvarpi þessu er stigið mikilvægt skref í að tryggja að starfsemi rekstrarleyfisskyldra gististaða falli að skipulagi sveitarfélaga hverju sinni og er frumvarpið m.a. í samræmi við ábendingar sem borist hafa frá sveitarfélögum. Með frumvarpinu er sveitarfélögum auðveldað að stýra rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi innan svæðis þar sem gert er ráð fyrir blandaðri byggð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis.

Verði frumvarpið að lögum er horft til raunverulegrar notkunar húsnæðis og mun það stuðla að því að álagning skatta verði í samræmi við raunverulega notkun húsnæðis. Ólíkt heimagistingu er litið á rekstrarleyfisskylda gististarfsemi sem atvinnustarfsemi og er tekjuskattur af slíkri starfsemi því hærri en af heimagistingu. Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar er 301 rekstrarleyfi skráð á höfuðborgarsvæðinu fyrir gististaði í samþykktu íbúðarhúsnæði. Er því ljóst að sveitarfélögin eru að verða af tekjum vegna þessa og er m.a. verið að bregðast við því með frumvarpi þessu.

Verði frumvarpið að lögum mun það enn fremur tryggja fullnægjandi eldvarnareftirlit, forvarnir og viðbúnað við eldsvoða til verndar lífi og heilsu fólks, eignum og umhverfi. Er það gert með því að kveða á um skyldu til að tilgreina á aðaluppdráttum að húsnæði tilheyri notkunarflokki 4 samkvæmt byggingarreglugerð þegar sótt er um rekstrarleyfi fyrir gististarfsemi. Þannig er tryggt að húsnæði sem fyrirhugað er undir rekstrarleyfisskylda gististarfsemi þurfi undantekningarlaust að uppfylla kröfur í samræmi við notkunarflokk 4 í byggingarreglugerð, svo sem hvað brunahólfun milli gistiherbergja varðar. Breytingin mun auðvelda slökkviliði að sinna fullnægjandi úttektum og brunaeftirliti í samræmi við raunverulega notkun húsnæðis á grundvelli reglugerðar um eldvarnir og eldvarnareftirlit, nr. 723/2017.

Virðulegur forseti. Verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa áhrif á útgefin rekstrarleyfi fyrir gististarfsemi sem eru 1.907 á landsvísu og eru gefin út á kennitölu einstaklings eða félags, þ.e. frumvarpið mun ekki hafa afturvirk áhrif og er það í samræmi við almenn ákvæði stjórnarskrár um atvinnufrelsi og eignarréttindi. Frumvarpið er, eins og áður hefur komið fram, liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar á framboðshlið íbúðarhúsnæðis. Til skoðunar eru frekari aðgerðir á því sviði sem snúa m.a. að aukinni áherslu og framlagi til eftirlits með heimagistingu og rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi sem kynntar verða síðar í þessari viku sem og endurskoðun á ákveðnum þáttum er varða heimagistingu til allt að 90 daga með það fyrir augum að unnið verði að því að losa um íbúðir sem nýttar eru í skammtímaleigu til að mæta eftirspurn á húsnæðismarkaði.

Frumvarpið var unnið í góðri samvinnu við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu og slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess var við gerð frumvarpsins fundað með fulltrúum innviðaráðuneytis, Mannvirkjastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Virðulegur forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.