154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[16:31]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þingheimur sé nokkuð sammála því að það sé mikilvægt að þetta frumvarp nái fram að ganga. Nú er frumvarpið að fara til nefndar og það kann að vera að hv. þingmaður sé kominn með einhverja nýja nálgun á að það sé hægt að fara í svona íþyngjandi aðgerðir afturvirkt án þess að ríkissjóður sé kominn með bótaskyldu. Ég hvet hv. þingmann til þess að fara í þá vinnu í nefndinni og sjá hvort það sé eitthvað þarna.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að um allt sem við gerum, framkvæmdarvaldið og löggjafinn, ríki gagnsæi. Við þurfum að passa upp á að þegar það eru komnar ákveðnar réttmætar væntingar um ákveðna starfsemi sem féll undir þá löggjöf sem var við lýði, að jafnvel þótt við séum mögulega ósammála því og teljum að þarna sé löggjöf eða reglugerð sem sé ekki góð fyrir samfélagsþróunina þá er það auðvitað bara svo að þá þarf að breyta lögum. Við gerum það á ákveðinn hátt þar sem fyrirsjáanleiki og gagnsæi ræður för. Við göngum ekki á réttmætar væntingar en höfum þó skilning á því að geri ríkisvaldið það eða framkvæmdarvaldið, og löggjafinn er sammála því, þá kunni það að baka ríkissjóði ákveðna skaðabótakröfu. Ég tel að ríkissjóður þurfi að passa upp á hverja einustu krónu, sérstaklega núna á þessum tímum. En ég fullvissa hv. þingmann um að nú er málið að fara til nefndar og þá kann að vera að það séu einhverjar nýjar nálganir sem okkur er ekki kunnugt um í ráðuneytinu og við erum nú þeirrar gerðar að ef það kemur einhver nýsköpun sem við teljum að sé góð fyrir samfélagið okkar þá lítum við til hennar.