154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

ókeypis fræðsla og þjálfun foreldra barna með ADHD.

67. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 153. löggjafarþingi og er nú lögð fram að nýju nær óbreytt. Umsagnir sem borist hafa um málið hafa almennt verið mjög jákvæðar.

Fjölmargir einstaklingar glíma við ofvirkni og athyglisbrest sem í daglegu tali er kallað ADHD. Einkenni ADHD skjóta almennt upp kollinum snemma á æviskeiði einstaklings, um 7 ára aldur, og geta haft áhrif á alla þætti lífsins, svo sem nám, vinnu og félagsleg samskipti. Rannsóknir sýna að allt að eitt af hverjum tíu börnum glímir við ADHD. Það þýðir að í 20–30 manna kennslustund eru líklega um tveir til þrír einstaklingar með ADHD. Börn og unglingar með athyglisbrest með eða án ofvirkni eiga einnig oft við aðra erfiðleika að stríða. Ákveðinn hópur er t.d. með sértæka námsörðugleika og alvarlegir félags- og hegðunarerfiðleikar eru ekki óalgengir. Þeim er mjög hætt við að þróa með sér mótþróahegðun. Kvíði og depurð er algeng og mörg þessara barna sýna einkenni áráttuhegðunar.

Börn með athyglisbrest með ofvirkni hafa sín séreinkenni. Oft eiga þau í erfiðleikum með að hafa gagn af útskýringum eða tiltali, yfirfæra reynslu sína á nýjar aðstæður og verða oft að finna upp hjólið upp á nýtt í hvert einasta skipti. Þau eiga erfitt með að skipuleggja sig og sætta sig við að fullorðna fólki sé ekki alltaf sjálfu sér samkvæmt út frá sjónarhóli barnsins séð. Þau hafa einnig oft mikla þörf fyrir að fullorðna fólkið skipuleggi fyrir þau, komi þeim af stað og hafi alltaf vakandi auga á þeim.

Til að gefa betri mynd af því hvað er frábrugðið við uppeldi barna með ADHD og aðra taugaþroskaröskun þá vil ég lesa upp nokkur atriði úr erindi Garðars Viborgs sálfræðings um uppeldi barna.

„Viðhorf foreldranna mótast af mörgum þáttum, t.d. af eigin uppeldi, menntun, gildismati, skapferli og fleiri mannlegum þáttum. Foreldrar verða að læra að þekkja sjálfa sig og börnin sín og þeir hafa valdið til að skapa jákvætt umhverfi. [Barn með ADHD] þarf að hafa fáar en skýrar reglur og fastar skorður á deginum. Samvinna foreldra er einnig mikilvægt atriði.

Æskilegt er að foreldrar geri sér grein fyrir því hvað er jákvæð og hvað er neikvæð hegðun hjá barninu og vera sammála um það. Þeir verða að vita við hvað er miðað þegar hrósað er eða skammað. Börn eru oft skömmuð of mikið. Foreldrar verða að vera samkvæmir sjálfum sér og reyna að bregðast alltaf eins við sambærilegum aðstæðum, gera sér grein fyrir hvenær barnið er erfitt og hvenær hegðun barnsins er áhrif frá foreldri. Hrós gefur meiri árangur í uppeldi en skammir.

Mikilvægt er að sýna sterk, jákvæð viðbrögð við góðri frammistöðu barnanna.

Vitsmunaleg úrvinnsla, atburður, hugsun, tilfinning og hegðun eru mikilvægir þættir í uppeldi allra barna. Þau verða að læra á umhverfið, samskiptareglur, tilfinningaleg viðbrögð, orsök og afleiðingu.

Sjálfstjórn foreldranna er einn mikilvægasti þátturinn í uppeldi allra barna“ — og enn þá mikilvægari í uppeldi barna með ADHD.

Eins og þið heyrið getur uppeldi barna með ADHD reynst frábrugðið uppeldi barna sem ekki glíma við taugaþroskaröskunarsjúkdóminn sem ADHD er, sérstaklega þar sem foreldrar verða að aðlaga sig að upplifun og einkennum barnanna. Oft kemur það fyrir að foreldrar finna fyrir óvissu í uppeldinu og eiga erfitt með að ákveða næstu skref. Allflestir foreldrar vilja gera sitt besta fyrir börnin sín og margir foreldrar kynna sér ADHD og allt sem taugaþroskaröskunin felur í sér. Sumir leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum. Flutningsmenn telja það nauðsynlegt að foreldrar hafi aðgang að fræðslu og þjálfun fyrir foreldra barna með ADHD og séu hvattir til þess að sækja þá fræðslu og þjálfun. Slík námskeið eiga að standa þeim, sem og forráðamönnum þegar það á við, til boða, þau eru samfélaginu til bóta og eiga að vera þeim að kostnaðarlausu.

Á síðustu árum hafa tilraunir verið gerðar til að sýna árangur námskeiða fyrir foreldra barna með ADHD. Horft er á námskeiðin sem fyrsta stigs meðferð fyrir börn með ADHD ásamt því að þau séu til þess fallin að aðstoða foreldra við að öðlast meiri skilning, þekkingu og reynslu af röskuninni. Á námskeiðunum sitja foreldrar fyrirlestra, fá lesefni og vinna verkefni sem tengjast uppeldi barna með ADHD. Námskeiðin eru ekki talin skila árangri við að draga úr hefðbundnum einkennum röskunarinnar, en foreldrar hafa almennt talið þau hjálpa sér og börnum sínum og það skilar sér vissulega í uppeldi og samskiptum barna með ADHD og foreldra þeirra. Þá telja rannsakendur og foreldrar að námskeiðin hafi haft jákvæð áhrif á námshæfileika og félagslega færni barnanna. Í Danmörku hafa slík námskeið þótt árangursrík. Talið er að þau verði mjög algeng um allan heim í náinni framtíð.

Unnin hefur verið undirbúningsvinna við að koma slíku námskeiði á laggirnar á Íslandi fyrir tilstilli ADHD-samtakanna. Þó hefur ekki náðst að tryggja fullt fjármagn fyrir námskeiðshaldið. Mikilvægt er að stjórnvöld taki þátt í þeirri mikilvægu vinnu að gera námskeiðin hér á landi að fullu aðgengileg þátttakendum, þ.e. foreldrum og forráðamönnum, og að þau verði þeim að kostnaðarlausu.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja það vera til heilla að námskeið sem þessi verði haldin hér á landi og að foreldrar barna með ADHD hafi tækifæri til að sækja þau sér að kostnaðarlausu. Með fræðslu og þjálfun, sem felur m.a. í sér verkefnavinnu, eru foreldrar barna með ADHD betur í stakk búnir til að kenna börnunum og ala þau upp. Framboð á slíkum námskeiðum er talið vera einn þáttur í því stóra verkefni að tryggja farsæld barna hér á landi. Með námskeiðunum er stuðlað að því að skapa skilyrði fyrir börn með ADHD til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar. Fjárhagslegar aðstæður eiga ekki að hamla framgangi farsældar barna.

Mikil tækifæri til samfélagsbóta eru talin felast í framangreindum námskeiðum. Vissulega fylgir þeim kostnaður fyrir hið opinbera en samfélagslegur ábati af slíku verkefni verður hreinlega ekki metinn til fjár. Því er mikilvægt að allur kostnaður falli ekki á foreldrana eingöngu. Markmiðið er að börn með ADHD eigi auðveldara með alla þætti eðlilegs lífs, þar á meðal nám, vinnu og félagsleg samskipti, bæði í nútíð og framtíð. Ásamt því munu foreldrar og samfélagið allt öðlast frekari skilning og þekkingu á ADHD, sem margir Íslendingar, bæði ungir og aldnir, glíma við.