154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

119. mál
[18:29]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Hér flytjum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, bein framlög frá lögaðilum. Flutningsmenn eru, ásamt mér, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Tómas A. Tómasson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Þetta er tiltölulega einföld breyting sem orðast svo:

„Stjórnmálasamtökum er óheimilt að taka á móti beinum framlögum frá lögaðilum. Allir afslættir lögaðila af vörum og þjónustu sem veittir eru af markaðsverði skulu sérgreindir í reikningum. Lögaðilar sem inna af hendi einhvers konar framlög til stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda, í formi afslátta eða hvers konar efnislegra gæða, skulu sérgreina heildarfjárhæð slíkra framlaga í ársreikningum sínum og gera Ríkisendurskoðun sérstaklega grein fyrir þeim afslætti. Telja skal saman framlög tengdra aðila. Afslættir mega ekki vera umfram það sem öðrum viðskiptavinum stendur almennt til boða.“

Stjórnmálasamtökum er heimilt að taka á móti framlögum frá lögráða einstaklingum sem nemur allt að 550.000 kr. á ári. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálasamtaka er þó heimilt að taka á móti framlögum frá einstaklingum umfram þetta, samtals að hámarki 100.000 kr. Frambjóðendum er heimilt að taka á móti framlögum frá lögráða einstaklingum sem nemur allt að 400.000 kr. á ári.“ — Þessi málsgrein er bara sú sama og er í núverandi lögum.

Að lokum:

„Stofnframlög, þ.e. framlög frá lögráða einstaklingum sem eru veitt í beinum tengslum við stofnun stjórnmálasamtaka, mega að hámarki nema sem svarar til tvöföldu hámarksframlagi skv. 1. málsl. 2. mgr.“ — sem er eins og núverandi lög.

Þetta er í rauninni mjög einfalt þegar allt kemur til alls og rökin fyrir þessu eru einstaklega einföld. Þegar einhver aðili er með fyrirtæki á sínum vegum sem lögaðili eins og er þá getur viðkomandi styrkt stjórnmálasamtök bæði sem lögaðili og einstaklingur. Að sjálfsögðu á einfaldlega að takmarka þetta við hvern einstakling. Ef viðkomandi fyrirtækjaeigandi vill fjármagna stjórnmálasamtök þá gerir hann það bara sem einstaklingur eins og allir aðrir, í staðinn fyrir að hafa í rauninni tvöfaldan möguleika til að styrkja stjórnmálasamtök. Málið verður í rauninni ekki flóknara en það.