154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

119. mál
[18:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég er bara algerlega ósammála hv. þingmanni því að með því að setja enn frekari takmarkanir á stjórnmálaöfl um að afla sér tekna þá er verið að auka ríkisvæðingu stjórnmálaflokkanna, sem er bara allt of mikil fyrir. Við eigum einmitt að fara í öfuga átt, eins og ég sagði.

Virðulegur forseti. Nákvæmlega það sem kom fram í máli hv. þingmanns er að það sé möguleiki á spillingu. Ég held að það sé bara allt of mikill áróður gegn atvinnulífinu og vantraust til atvinnulífsins. Það er bara mjög eðlilegt að fólk reki fyrirtæki og að fyrirtæki skili hagnaði og greiði arð og það er ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki geti líka styrkt stjórnmálaflokka eða annars konar starfsemi einhverra svo lengi sem það er gegnsæi. Það má að sjálfsögðu vera ákveðið þak á því og ég fagnaði mjög í rauninni í þeim reglum sem settar voru á sínum tíma hvað gegnsæið og þak varðaði, mér finnst það mjög eðlilegt. En að ganga enn frekar á möguleika stjórnmálafélaga til að afla sér tekna finnst mér vanhugsuð stefna því að hún leiðir í eðli sínu til aukinnar ríkisvæðingar slíks. Að halda því fram að fyrirtæki gætu þá verið að kaupa sér einhvers konar aðgang að völdum eða áhrifum þá mætti alveg eins færa rök fyrir því að þeir sem eiga fyrirtæki séu að gera það með því að setja fjármagn í svoleiðis. En ég held að við þurfum bara að vera heiðarlegri með það að það er gegnsæi varðandi þessar greiðslur og það á að vera þak á þeim og það er allt saman mjög eðlilegt. En hitt lýsir mjög miklu vantrausti til atvinnulífsins og atvinnurekanda, að þeir ætli sér með einhverjum fjárframlögum að kaupa hér einstaka þingmenn. Og þó að það þekkist í einhverjum löndum erlendis þá leyfi ég mér að fullyrða að það sé ekki hér miðað við það regluverk sem við búum við.