154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þessa mikilvægu umræðu hér í dag. Það væri hálfskrýtið ef það væri ekki gert þegar svona mikið gengur á suður með sjó. Ég fæ að taka þátt í umræðum hér á eftir en nota minn stutta tíma til að spyrja hæstv. ráðherra, þar sem stjórnvöld hafa þurft að hafa ýmis samskipti við orkuverið í Svartsengi, hvort hún telji að það skipti einhverju máli eða vera til trafala að orkuverin, bæði HS Orka og HS Veitur, eru í einkarekstri og í einkaeigu þannig að hugsanlega gætu verið einhver önnur markmið þar heldur en hjá opinberu fyrirtæki. Flækir þetta eignarhald málin þegar gera á kröfu um að fara í kostnaðarsamar og nauðsynlegar framkvæmdir við þessar aðstæður?