154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi umræða kom reyndar upp þegar ég mælti fyrir frumvarpinu um heimild til að reisa varnargarða sem var einmitt gagnrýnt vegna þess að þar ættu undir bæði einkarekin orkufyrirtæki og síðan er þar auðvitað annað fyrirtæki innan varnargarðanna. En eins og kom fram í máli mínu þá þá hljóta stjórnvöld alltaf að hafa bara hagsmuni íbúa á svæðinu sem sitt leiðarljós í því sem gert er. Það er hins vegar alveg ljóst líka, eins og ég sagði þá og get ítrekað hér, að mér finnast mikilvægir innviðir sem þessir eiga heima í almannaeigu og mér finnst þessi staða núna sýna okkur hversu mikilvægt það er því að við eigum auðvitað okkar orkufyrirtæki sem skilar okkur miklum arði en hægt er að leggja miklar kröfur á. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega vatnsöflun, en HS Veitur hafa með stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga aukið vatnsöflun í gömlu vatnsbóli í Árnarétt í Garði sem mun geta þjónustað íbúa svæðisins ef á þarf að halda, en það vatnsból getur nú skilað allt að 100 lítrum á sekúndu. Til samanburðar nota Reykjanesbær og Suðurnesin að jafnaði bara um 170 lítra á sekúndu. Þetta var gert vissulega með stuðningi jöfnunarsjóðsins.