154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:57]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem hér á sér stað. Hún er mikilvæg og mikilvægt að við eigum þetta samtal um þessa stöðu. Ég vil líka lýsa ánægju minni með að hæstv. forsætisráðherra skyldi gefa sér tíma til að heimsækja Suðurnesin í gær og finna á eigin skinni hver staðan er og jafnframt skynja það æðruleysi sem ríkir meðal fólksins á Suðurnesjunum.

Tekið var viðtal við hæstv. ráðherra í Víkurfréttum og þar benti hún á mikilvægi þess að hafa heildarsýn sem tæki mið af þessari náttúruvá sem við getum farið að reikna með. Mig langar aðeins að spyrja betur um þessa heildarsýn, af því að ég held að við vitum öll hver heildarsýnin er og hvað við þurfum að gera, en ég held að okkur skorti í raun og veru þau verkfæri sem við þurfum að hafa til að ná utan um þetta og skapa öryggi allra þeirra sem búa á Suðurnesjum.