154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara svo ég ljúki fyrra svari þá stendur fyrir dyrum og hefur verið til umræðu í þessum ráðuneytisstjórahópi sem ég nefndi hér áðan að setja á laggirnar sérstakan hóp með sveitarstjórum og bæði orkufyrirtækjum og veitufyrirtækjum til að ræða þessa framtíðarsýn. Það er hins vegar alveg rétt að þar þarf líka að ræða aðra kosti en eingöngu þá sem nú þegar eru fyrir hendi til að tryggja öryggi íbúa.

Annars vil ég bara ítreka það sem ég sagði áðan í svari mínu við hv. þm. Oddnýju Harðardóttur: Öll samskipti við þessi fyrirtæki hafa verið til fyrirmyndar og það fólk sem þar vinnur. Hins vegar vekur þetta upp spurningar um bæði stöðu þeirra á þessum markaði og eignarhald þeirra þegar um er að ræða slíka grundvallarinnviði. Ég get bara játað það hér, án þess að vitna í neina einstaklinga, að það voru margir á Suðurnesjum sem nefndu nákvæmlega þetta, ekki vegna þess að það sé ekki ánægja með fólkið sem stendur þarna vaktina dag og nótt (Forseti hringir.) heldur bara þessar vangaveltur um að slíkir innviðir eigi að vera á forræði almennings.