154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:08]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Staðan á Suðurnesjunum er alvarleg. Eftir nokkur krúttleg túristagos hefur alvaran tekið við og náttúran sýnt okkur að hún er ekkert lamb að leika sér við, að náttúran er ekki bara okkur til skemmtunar heldur geti hún líka valdið miklum skaða. Vandi Grindvíkinga og afleiðingar jarðhræringa og eldgosa fyrir þá er vel þekktur og verður því ekki ræddur sérstaklega hér en þó er ástæða til að taka fram að skaði þeirra er mun meiri en annarra íbúa á Suðurnesjum og það má ekki gleymast þegar við ræðum aðrar alvarlegar afleiðingar.

Við Íslendingar erum þekkt fyrir að trúa því að hlutirnir reddist og staðreyndin er sú að oft gera þeir það. Staðreyndin er líka sú að stjórnvöld hafi sofið á verðinum þangað til núna og uppbygging innviða hefur ekki fylgt spám um flutnings-, hita- og orkuþörf. Það er þetta „þangað til“ sem skiptir máli. Bíll gengur þangað til hann er eldsneytislaus og hægt er að komast upp með andvaraleysi á ýmsum sviðum þangað til allt í einu eitthvað klikkar. Það sem gerðist á Suðurnesjum í síðustu viku var að sénsarnir sem við höfðum kláruðust og okkar „þangað til“ var komið á leiðarenda og við vorum komin í: Guð minn almáttugur, hvað nú? Það verður að segjast að Íslendingar eru góðir í að redda málum enda hefði „þetta reddast“-hugsunin varla enst svona lengi þjóðarsálinni ef svo væri ekki. Þegar „hvað nú?“-ástandið varð að veruleika var gripið til róttækra aðgerða og allir lögðust á eitt. Unnið var myrkranna á milli og allt lagt í sölurnar til að koma á heitu vatni sem fyrst. Það er ekki orðum aukið að kraftaverk hefur verið unnið á síðustu dögum og ég á engin orð til að tjá aðdáun mína á öllum þeim starfsmönnum sem tókust á við ný og óvænt verkefni, bæði þeim sem skipulögðu aðgerðir og vinnuna við leiðsluna og einnig þeim sem svo byggðu og tengdu nýja heita vatnsleiðslu á tæpum þremur dögum, mun skemmri tíma en nokkur gerði ráð fyrir.

Það er líka í svona aðstæðum þar sem reynir á samkennd íbúa, að allir skilji að þeirra framlag til að orkusparnaður skiptir máli, að enginn ákveði að halda bara sínu striki á meðan aðrir taki á sig skortinn. Það er óhætt að segja að Suðurnesjabúar hafi staðist þessa prófraun með glæsibrag og allir hafi lagst á eitt. Núna er heitt vatn aftur komið á á Suðurnesjunum og húsin byrjuð að hlýna aftur. En hvað gerist næst? Næsta gosi er spáð innan nokkurra vikna og enginn veit hvar það kemur upp eða hvort það muni valda skaða á innviðum — og þá hvaða skaða, hversu mikill hann verður eða hverjar afleiðingar hans kunna að verða. Hraunflæði hefur aukist með hverju gosi og því verður að gera ráð fyrir að í næsta gosi kunni hraunið að flæða enn hraðar. Við erum í algjörri óvissu og bregðast þarf hratt við þegar og ef til kemur.

Við gosið 10. nóvember sönnuðu nýbyggðir varnargarðar gildi sitt. Þeir höfðu verið byggðir aðeins skömmu áður og málin stóðu það tæpt að þeir sem voru að vinna við varnargarðana voru að hamast við að ljúka þeirri vinnu og loka varnargörðunum með spúandi eldfjallið í baksýn á meðan gróandi hraunflæðið nálgaðist þá, þvílíkar hetjur, og þetta reddaðist eins og svo margt annað. En þá komum við að spurningunni hvort „þetta reddast“-hugarfarið sé ásættanlegt þegar um jafn mikilvæga innviði er að ræða og þá sem hafa bein áhrif á líf og öryggi þúsunda. Fimm ár eru síðan jarðskjálftahrynur hófust nálægt Grindavík. Það eru um þrjú ár síðan fyrst gaus og ljóst var að við værum að ganga inn í nýtt jarðhræringatímabil á Reykjanesskaganum sem kynni að vara um margra ára eða jafnvel áratugaskeið. Það má vissulega kalla það óheppni að svæði sem verið hefur til friðs í þúsund ár láti á sér kræla akkúrat núna á okkar líftíma en það er engu að síður staðreynd. Hefði ríkisstjórnin ekki átt að bregðast við um leið og þetta var ljóst, sem sagt fyrir þremur árum síðan? Hefði ríkisstjórnin ekki þá strax átt að byrja að skoða verstu sviðsmyndirnar og byrja að huga að því að tryggja innviði eins og orku, rafmagn og heitt vatn, með því að efla flutningskerfi raforku og kannski byggja aðra hitaveitulögn á öðrum stað en þá sem fyrir er?

Svartsengi stendur nákvæmlega þar sem óróinn er mestur. Ein allra versta sviðsmyndin er sú að virkjunin fari alveg, t.d. af því að hraun flæði yfir hana eða gos komi hreinlega upp undir henni. Varnargarðar sem reistir voru á síðustu stundu hafa nú þegar varið hana fyrir hraunflæði. En hvað ef það kýs undir henni? Það eru vissulega ekki miklar líkur á því að gosið kom upp nákvæmlega á þeim bletti af öllu því landflæmi sem það hefur úr að velja en það er þó mögulegt. Af hverju er ekki þegar hafinn undirbúningur að annarri virkjun á öðrum stað? Þó að hún væri ekki jafn kraftmikil og stór og Svartsengi hefðu Suðurnesjabúar a.m.k. eitthvað upp á að hlaupa og neyðarástand myndi ekki skapast á borð við það sem við horfðum á núna um helgina.

Það er sagt að eigendur HS Orku hafi greitt sér út tugi milljarða í arð á undanförnum árum. Sé það rétt má velta fyrir sér hvort því fé hefði ekki verið betur varið í uppbyggingu innviða á viðkvæmu svæði á undanförnum árum. Það er hins vegar erfitt að gagnrýna HS Orku of harkalega núna eftir þrekvirki helgarinnar þar sem fyrirtækið stóð sig óneitanlega með glæsibrag. En svona fregnir vekja engu að síður upp spurningar um einkavæðingu innviða. Nú kunna margir að halda að ég sé almennt á móti allri einkavæðingu enda hef ég t.d. barðist harkalega gegn einkavæðingu og sölu viðskiptabankanna, auk þess að velta upp spurningum um einkavæðingu hér í þessu samhengi. Það er hins vegar alls ekki rétt að ég eða Flokkur fólksins séum bara almennt á móti einkavæðingu. Við erum hins vegar alfarið á móti einkavæðingu á grunnkerfi innviða landsins. Allt það sem fólk neyðist til að kaupa, eins og t.d. rafmagn og hita, teljum við algjört glapræði að einkavæða. Almenningur hefur ekki val um að kaupa þjónustu þessara aðila og þrátt fyrir yfirlýst markmið um samkeppnismarkað verður sala á raforku og heitu vatni alltaf í raun á fákeppnismarkaði.

Það er staðreynd að allt flutningskerfið og veitur þessara markaða voru reistar af fólkinu og fyrir fólkið. Hitaveitur og virkjanir landsins voru reistar af framsýni og stórhug, af feðrum okkar og mæðrum fyrir okkur og komandi kynslóðir svo að öll þjóðin mætti njóta góðs af en ekki til að fáir útvaldir gæðingar gætu stórgrætt. HS Orka var til að mynda ekki einkavædd vegna þess að íbúar Suðurnesja vildu selja hlut sinna sveitarfélaga heldur vegna þeirra miklu skuldavandræða sem sveitarfélögin lentu í eftir hrunið þar sem lánaflétturnar sem viðskiptabankarnir höfðu platað bæjarfélögin í léku þau grátt. Það má náttúrlega alveg spyrja sig að því hvort hagnaður HS Orku hefði verið eins mikill undir stjórn ríkisins og hann varð undir stjórn fjárfesta. Það er fullkomlega eðlileg spurning því að ekki er allt vel rekið sem ríkið sér um. En það má líka spyrja sig hvernig svona gríðarlegur hagnaður verður til ef verið er að innheimta sanngjarnt verð fyrir heita vatnið. Annað sem alls ekki er víst er hvernig stjórnvöld hefðu varið þessum hagnaði ef HS Orka hefði ekki verið einkavædd. Hefðu fjárfestingar til uppbyggingar innviða aukist eða hefði hagnaðurinn bara runnið í einhver gæluverkefni? Það er því miður alls ekki auðvelt að svara því. Uppbygging innviða er því miður ekki alltaf vænleg til vinsælda þó að hún geti skipt gríðarlegu máli þegar upp er staðið.

Suðurnesin öll búa nú við mikla óvissu. Á ensku er talað um „wake up call“ og það má segja að við höfum verið vakin með háværri vekjaraklukku. Enginn veit fyrir víst hvað gerist næst og við þurfum að horfast í augu við vandann og takast á við hverja áskorun þegar hún kemur upp eða öllu helst áður en að því kemur ef áhættan er fyrirséð og viðbragðsaðgerðir mögulegar. Vonandi kemur næsta og næstu gos á öðrum stöðum þar sem þau valda ekki miklum skaða. En við þurfum engu að síður að búa okkur undir það versta, t.d. væri ekki úr vegi að fjölga varaaflstöðvum hér á landi og geyma þær á suðvesturhorninu þar sem mestar líkur eru á að þeirra verði þörf. Og við þurfum að útvega kyndistöðvar og koma þeim á Fitjar sem fyrst. Huga þarf að vörnum í kringum leiðslur sem gefa Suðurnesjum rafmagn og hita. Sjálfsagt er ekki hægt að verja þær alls staðar en við verðum að byrja þar sem hættan á hraunflæðinu er talin mest þó að það sé alltaf í besta falli ágiskun. Við sem ekki komum að þessu með beinum hætti þurfum að treysta almannavörnum og þeim sérfræðingum sem við höfum yfir að ráða. Við erum í raun alveg ótrúlega rík að hafa jafn hæft fólk í þessum verkefnum, ekki síst ef miðað er við hina frægu höfðatölu. Sennilega væri best ef ríkisstjórnin færi að ráðum þeirra í einu og öllu því að þau vita væntanlega best.

En við þurfum einnig að láta þetta okkur að kenningu verða og huga að innviðum á öðrum svæðum. Hvernig er t.d. raforku-, vatns- og hitaveituöryggi háttað á höfuðborgarsvæðinu þar sem stærstur hluti landsmanna býr? Hvað þarf til að svipað ástand verði hér á höfuðborgarsvæðinu eins og Suðurnesjabúar upplifðu nú um helgina? Hvað má verða stór Suðurlandsskjálfti til að skemmdir verði viðráðanlegar og neyðarástand skapist ekki? Hve stóran skjálfta þola orkumannvirkin á Hellisheiði t.d.? Einnig má nefna fámennari svæði. Það er allt of víða á árinu 2024 að öryggi innviða er ekki nægjanlegt. Staðir eins og Vestmannaeyjar koma upp í hugann, þar sem vatnslögn rofnaði t.d. nýverið, en þeir eru einnig nokkrir á fastalandinu þar sem innviðaöryggi er ábótavant. Fyrrverandi Rarik-karl, eins og hann kallar sjálfan sig, hafði samband við mig og sagði mér að ástand á línum austur á Hellisheiði væri orðið ákaflega dapurt og sagði svo orðrétt, með leyfi forseta:

Það er ekki spurning hvort heldur hvenær þetta kolryðgaða línudrasl austur á Hellisheiði hrynur í jörðina, hvort það verður jarðskjálfti eða illviðri eða hvort tveggja skiptir ekki máli, það tekur mjög langan tíma að koma rafmagni á aftur.

Ég hef ekki vit til að segja til um réttmæti þessara ábendinga en tel þó að viðkomandi sé almennt treystandi. Spurningin er hvort það sé til viðbragðsáætlun ef t.d. rafmagn fer af höfuðborgarsvæðinu til lengri tíma. Við verðum að draga lærdóm af því sem er að gerast á Suðurnesjum og fara að huga að innviðauppbyggingu um allt land. Ef atburðir undanfarinna daga og mánaða ættu að hafa kennt okkur eitthvað er það að náttúran lætur ekki að sér hæða og ekki er endalaust hægt að treysta á að þetta reddist. Við verðum að huga að innviðum og öryggi okkar í ófyrirsjáanlegum aðstæðum í víðu samhengi. Eitt er víst: Fram undan eru stórar áskoranir þar sem Suðurnesjamenn þurfa að standa saman og við sem þjóð að standa með þeim og almannavörnum.