154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Þetta er búin að vera ansi áhugaverð umræða. Ég var dálítið hugsi eftir ræðu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar því að mér fannst hann draga ágætlega upp vendipunktinn sem við stöndum á, hvernig við færum okkur úr viðbragði yfir í aðlögun, yfir í það að laga okkur að því hvernig staðan verður til lengri tíma. Viðbragðsfasinn er versta mögulega staða til að standa í til lengri tíma. Þá eru gerð mistök. Þá er allt dýrara. Þá er mannslífum jafnvel teflt í hættu. Nefnum bara dæmið um lögnina sem var lögð yfir nýrunnið hraun og hefur verið lýst réttilega í umræðunni sem verkfræðilegu afreki. Þetta er líka stórhættulegt. Það er verið að senda menn á jarðýtum út á nýrunnið hraun. Það er ekki langt síðan við supum hveljur yfir því að túristar væru að labba á tveimur jafnfljótum yfir nýrunnið hraun og almannavarnir vildu helst bara geta sent svona fólk úr landi, fannst mér. Nú bara látum við margra tonna tæki trilla þarna yfir. En það er af illri nauðsyn því hvernig er brugðist við þegar heill landshluti missir húshitun um hávetur? Þá er gripið til neyðarúrræða. Það er viðbragðsfasinn sem við viljum svo gjarnan losa okkur úr.

Það er svo skrýtið að í landi eins og Íslandi þar sem veður eru válynd og náttúran óblíð þá er eins og við þurfum að vakna upp við vondan draum til þess að færa okkur yfir í forvarna- eða aðlögunarfasann. Rifjum upp hvernig ofanflóðasjóður varð til, bara sem faglegur rammi utan um það hvernig við komum í veg fyrir dauðsföll af völdum snjóflóða og skriðufalla. Það var ekki fyrr en fólk dó á Flateyri og í Súðavík að þessum sjóði var komið á og fór að sinna forvörnum til að það þyrfti ekki að bregðast við jafn hræðilegum atburðum og áttu sér stað fyrir vestan. Sá sjóður var síðan endurskilgreindur í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli, tímabundið að vísu, þannig að nota mætti hluta af tekjum sjóðsins til þess að vinna heildarhættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða á Íslandi. Eldgosin augljóslega nauðsyn, vatnsflóð og sjávarflóð sívaxandi nauðsyn vegna loftslagsbreytinga en þessi heimild hefur aldrei orðið að einhverju varanlegu úrræði. Við erum enn í dálitlum viðbragðsham varðandi þetta. Það er verið að framlengja þetta ár fyrir ár. Í tengslum við afgreiðslu fjárlaga er þessi bráðabirgðaheimild ofanflóðasjóðs til að gera allt annað en ofanflóðasjóður var stofnaður til að gera, framlengd frekar en að við komum í gagnið einhverju varanlegu. Þess vegna er auðvitað ánægjulegt að heyra hæstv. forsætisráðherra lýsa því hér að það sé hafin vinna um heildstætt hættumat fyrir svæðið á Suðurnesjum út frá eldgosahættu en að sama skapi klórar maður sér dálítið í kollinum vegna þess að það er það sem var sett af stað árið 2011 fyrir allt landið í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli. Við hljótum að þurfa að spyrja okkur hvort stjórnvöld hafi ekki keyrt þetta verkefni í gang af nægjanlegum krafti, hafi ekki sýnt því þá alvöru sem nauðsynleg er og fyrir vikið séum við aftur komin í viðbragð þegar kemur að því að meta hættuna á Suðurnesjum frekar en að hafa getað gert það á forvarnastigi.

Svo langar mig rétt að nefna, eins og fleiri hafa komið inn á í umræðunni, að ekki hafi verið brugðist við varnaðarorðum Orkustofnunar og fleiri varðandi það að það þyrfti að búa sig undir þær sviðsmyndir sem síðan raungerðust þegar hitaveitan datt út í kjölfar síðasta goss. Meira að segja ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, sem lét vinna skýrslu undir heitinu Hitaveitur á Íslandi, úttekt á stöðu hitaveitna, flaggar þessari skýrslu gjarnan sem svona heildarúttekt á því (Forseti hringir.) hvar skóinn kreppir í hitaveitumálum en samkvæmt verksamningi ráðuneytisins við ÍSOR (Forseti hringir.) voru bara lághitasvæði skoðuð. Það voru sem sagt skoðaðar eiginlega allar opinberar hitaveitur nema á Suðurnesjum, (Forseti hringir.) þar sem háhiti er notaður til að hita kalt vatn, það var undanskilið í verkbeiðni ráðherrans. Bara nýskeð.

(Forseti (LínS): Þingmenn eru minntir á að virða tímamörk.)