154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég hef ekki komið auga á þessi stóru stjórnarskrárlegu álitamál sem hv. þingmaður vekur hér máls á. Ég rakti það í minni framsögu að þau höfðu vissulega verið verulega mikið rædd í upphafi og það voru uppi ólík sjónarmið og það lágu fyrir þinginu í upphafi ólík lögfræðileg álit um stjórnarskrárleg álitamál. En mér sýnist að dómaframkvæmdin í millitíðinni hafi tekið af allan vafa um að dómstólar telji ekki ganga gegn stjórnarskránni hvernig staðið var að málum í upphafi. Frumvarpið sem lá hér fyrir þinginu á sínum tíma var túlkunarregla. Hér er spurt: Gengur slík túlkunarregla framar öðrum íslenskum lögum? (Forseti hringir.) Það verða að vera dómstólar sem á endanum tjá sig um það hvaða svigrúm er til þess í lögum (Forseti hringir.) að setja túlkunarreglur. Það er ekki auðvelt að úttala sig um það en það liggja fyrir lögfræðiálit um að túlkunarreglan standist öll viðmið.