154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn sem vilja fara inn í umræðuna á þessum nótum, á þessum forsendum, að sérhver breyting á EES-lögunum til breyttrar framkvæmdar á þjóðréttarlegu skuldbindingunni sem felst í bókun 35 feli í sér brot á stjórnarskránni, þurfi þá aðeins að botna þennan málflutning og útskýra það fyrir manni. Ef niðurstaðan er sú að EES-innleiðingin á bókun 35 með EES-lögunum sé ófullnægjandi og sérhver breyting á því sé bara brot á stjórnarskránni, eru menn þá komnir á þann stað að EES-samningurinn gangi ekki upp gagnvart stjórnarskránni? Eru menn þá orðnir talsmenn þess að hætta bara í EES-samstarfinu? Eða eru menn að leita einhverra lausna? Þeir sem tala fyrir því að þeir sem vilja hreyfa sig í þessu máli ætli að fara gegn stjórnarskránni, þurfa að fylgja þeim málstað eftir og svara því hvort þeir eru tilbúnir til að verja EES-samninginn (Forseti hringir.) eða hvort þeir vilji losna við hann vegna þess að hann klagi upp á stjórnarskrána.