154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel reyndar að við eigum að geta lifað með þeirri stjórnskipunarvenju sem hefur myndast á þessum 30 árum um að samningurinn standist kröfur stjórnarskrárinnar og hef svo sem líka sagt hér í dag að sú umræða getur alveg haldið áfram um þörfina fyrir stjórnarskrárbreytingar. En ég tel ekki nauðsynlegt að gera breytingar á stjórnarskránni til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Það sem segir í lögunum er skýrt. EFTA-ríkin hafa skuldbundið sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum þegar árekstrar verða milli EES-reglna og annarra settra laga, EES-reglna sem komnar eru til framkvæmda. Ég myndi segja að þetta sé ein vægasta leiðin til að bregðast við, (Forseti hringir.) sú leið sem var kynnt hér fyrir þinginu í fyrra. En í ljósi þess hve þinginu gekk illa að klára málið þá er ég að reyna að endurvekja umræðu um þetta.