154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:19]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Farið hefur mikið fyrir umræðu um svokallaða bókun 35. Í þeirri umræðu er mikilvægt að við höldum uppi staðreyndum tengdum bókuninni. Í víðu samhengi snýst hún um þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Ísland hefur samþykkt. Í samningaviðræðum um EES-samninginn var lögð á það áhersla af hálfu Evrópusambandsins að reglan um forgangsáhrif ESB-réttar yrði einnig hluti EES-réttar. EFTA-ríkin gátu ekki fallist á að reglan um forgangsáhrif yrði hluti EES-samningsins. EES-rétturinn er mun flóknara en ESB-rétturinn svo ákveðin ríki töldu þetta ekki samræmast fullveldi þeirra.

Í okkar tilfelli er hér um að ræða 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands en þar segir:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Við leit sína að lausn á málinu komu ríkin fram með bókun 35 og með bókuninni var leitast við að fara einhvers konar milliveg milli sjónarmiða ESB og EFTA-ríkjanna um forgangsáhrif. Í bókuninni kemur fram að hún eigi aðeins við um ákvæði EES-réttar sem þegar eru komin til framkvæmdar. Til þess að ákvæði sem innleiðir EES-reglu njóti forgangs þegar lagaákvæði rekast á þarf EES-reglan að leiða af gerð sem er orðin hluti af EES-samningnum. EES-reglan þarf að vera í gildi og innleidd réttilega í íslenskan rétt. Með því er verið að kveða á um hvernig skuli fara með þegar saman lýstur íslenskum lagareglum sem hafa verið settar með stjórnskipulega réttum hætti af Alþingi eða stjórnvöldum með fullnægjandi lagaheimild en eiga sér ólíkan uppruna.

Með EES-samningnum er stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald sitt til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins. Þessum markmiðum verður að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig. Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.

Markmiðið með bókuninni er að tryggja samræmi í framkvæmd innan EES-svæðisins með þeim hætti að íslenskir ríkisborgarar sé í sömu stöðu og ríkisborgarar annarra landa innan EES-svæðisins frammi fyrir dómstólum.

Virðulegur forseti. Mikið hefur verið rætt um að við séum með þessari breytingu að binda hendur Alþingis til framtíðar. Svarið við því er einfaldlega að svo er ekki. Í ákvæðum frumvarpsins sem var lagt fram hér á síðasta löggjafarþingi er sérstaklega tekið fram að EES-ákvæði gangi framar almennu lagaákvæðið nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Framangreindur fyrirvari tryggir það að hendur Alþingis bindist ekki til framtíðar því löggjafinn getur á hvaða tímapunkti sem er sett lög sem eru ósamrýmanleg EES-skuldbindingum, svo framarlega sem það sé tekið skýrt fram í lögskýringargögnum. Vald til lagasetningar er og verður því alltaf hjá Alþingi.

Því hefur einnig verið fleygt fram að með frumvarpinu sé verið að veita EES-reglu sambærilega stöðu og stjórnarskrá en svo er ekki þar sem frumvarpið hefur engin áhrif á rétthæð réttarheimilda og við erum heldur ekki að framselja lagasetningarvald til ESB þar sem Alþingi þarf alltaf að innleiða EES-gerðir í íslenskan rétt til að þær öðlist gildi að landsrétti. Gerðir EES og ESB verða því aldrei sjálfkrafa hluti íslensks réttarkerfis. Réttilega innleidd EES-löggjöf hefur forgang umfram almenn lög ef ákvæði skarast á en alltaf er um að ræða íslensk lög sem þegar hafa verið samþykkt af Alþingi. Í frumvarpinu sem lagt var fyrir á 153. löggjafarþingi kom einnig fram að þær EES-reglur sem ekki hafa verið innleiddar í íslenskan rétt sem lög frá Alþingi hafi ekki áhrif

EFTA-dómstóllinn hefur í framkvæmd staðfest þá grunnforsendu bókunar 35 að EFTA-ríkin hafi ekki framselt löggjafarvald og að bókunin eigi einungis við um EES-reglur sem hafa réttilega verið innleiddar í landsrétt. Dómaframkvæmd EFTA bendir einnig til þess að efnisregla bókunar 35 sé kjarnaregla í EES-rétti sem sé nauðsynleg til að tryggja einsleitni reglna á Evrópska efnahagssvæðinu og mikilvæg út frá trúnaðarskyldum samningsaðila EES-samningsins á grundvelli 3. gr. hans. Líkt og segir í skýrslu þeirri sem við ræðum hér er mikilvægt á forræði stjórnvalda á málinu sé tryggt og að lausnin sé á forsendum Íslands. Það er skýrt af öllu því sem fram hefur komið við ítarlega athugun á þessu máli að við erum ekki að brjóta gegn stjórnarskrá Íslands og það sem mikilvægast er að halda uppi er að við erum ekki með þessari bókun að framselja löggjafarvald okkar til Evrópusambandsins.

Virðulegur forseti. Ég fagna framkominni skýrslu og að við fáum tækifæri til að ræða þetta hér í dag. Það skiptir máli að við tökum málefnalega umræðu, að við spyrjum gagnrýnna spurninga og séum að halda uppi okkar sönnu gildum sem fullvalda ríki. En ég hvet okkur öll til að halda uppi staðreyndum og rökrænni umræðu þegar kemur að málum sem þessum sem við fáum til úrlausnar hér á þinginu.