154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[17:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Með þessu tveggja stoða fyrirkomulagi sem var ákveðið er það í rauninni EFTA-dómstóllinn sem dæmir í málum sem við skjótum til hans. Ég held að fólk þurfi bara að gera sér grein fyrir því að í svo viðamiklum samningum, sem þessi svo sannarlega er, þá sé alltaf hægt að tiltaka einhver dæmi um hluti sem geta verið íþyngjandi fyrir okkur. Það hefur ekki þurft erlendar stofnanir til. Mér hefur sýnst þetta vera meira og minna allt hjúpað gulli þegar þetta ratar út frá þinginu á endanum. Þannig að ég ætla ekkert að útiloka það að í þessu hafi stundum falist hlutir sem við hefðum betur viljað vera án. Ég held hins vegar að þú þurfir alltaf að horfa á heildina og átta þig á því hvort ávinningurinn sé meiri þrátt fyrir það. Ég held að það sé hafið yfir allan vafa að hann er það. Ég vil eiginlega ekki hugsa þá hugsun til enda og ég átta mig eiginlega ekki á því eða ég trúi því varla að hv. þingmaður vilji hreinlega þá bara hverfa frá þessum samningi sem hefur fært vinnandi fólki hérna í landinu t.d. (Gripið fram í.) á sviði félagaréttar, jafnréttisreglna og annars slíks alveg ótrúlega miklar framfarir, svo að ég tali nú ekki um alls kyns vandamál og flækjur sem fylgja þessum nýja veruleika sem er að taka ofboðslega hröðum breytingum. Ég er ekki viss um að þetta litla land og þetta litla löggjafarþing réði alveg við að hafa yfirsýn yfir allt þannig að ég held að þetta gagnist okkur sérlega vel. Það væri gaman að heyra hvort hv. þingmaður er virkilega að daðra við það að þessi samningur sé til óþurftar.