154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:48]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni kærlega fyrir andsvarið. Ég ætla ekki að láta flækja mig í þennan orðhengilshátt hv. þingmanns. Ég var bara hreinlega að fara yfir vilja þingmanna til að leysa þessa hnökra, þessi vandkvæði sem eru komin upp í framkvæmd EES-samningsins og hafa verið margrakin og hv. þingmanni er vel kunnugt um. Hvort ég telji að það sé eða hafi komið upp ástæða til að beita þessari heimild sem okkur er frjálst að beita hvenær sem er, þá tel ég svo ekki vera. En þá ætla ég leyfa mér að segja á sama tíma — og óttast auðvitað mjög að orð mín séu klippt úr samhengi eftir heimsókn í Silfrið í gærkvöldi, maður veit aldrei hvenær er klippt á mann — að okkur er það frjálst, alveg sama hvaða vandamál kemur upp eða hvað dagur kemur upp eða nýjar upplýsingar eins og ég nefndi áður, okkur er frjálst á hverjum einasta degi sem við vöknum og förum að sofa að yfirgefa þetta samstarf. Ef koma upp einhverjar þær aðstæður, þó að við nýtum okkur ekki einhverjar sérstakar heimildir til þess að vísa málum til baka eða stöðva þau eða senda þau heim til föðurhúsanna, þá er okkur alltaf frjálst sem sjálfstæðri fullvalda þjóð að ganga úr þessu samstarf. Við erum ekki skuldbundin því með blóðeiði ævilangt. Þannig að ég hef ekki eins miklar áhyggjur af þessu og hv. þingmaður.