154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

689. mál
[19:32]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Frumvarp þetta er endurflutt en það var áður lagt fram á Alþingi á 153. löggjafarþingi. Nánar tiltekið er um að ræða breytingar á VI. kafla A í lögunum sem fjallar um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Kaflanum var bætt við lögin með lögum nr. 12/2021, til þess að innleiða tilskipun 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Samkvæmt mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA er tilskipun um geymslu koldíoxíðs í jörðu tæknilega hlutlaus sem þýðir að aðrar aðferðir við geymslu koldíoxíðs en lýst er í tilskipuninni falla einnig undir tilskipunina. Tilskipunin er tengd reglum um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ETS-kerfinu.

Fyrirtæki sem taka þátt í ETS-kerfinu geta dregið það koldíoxíð sem dælt er niður í jörðina til geymslu, samkvæmt reglum tilskipunarinnar, frá losun sinni í vöktunaráætlun sem skilað er til lögbærra yfirvalda í hverju ríki samkvæmt tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi ESB. Frá samþykkt laganna 2021, þar sem tilskipun um geymslu koldíoxíðs í jörðu var innleidd, hafa íslensk stjórnvöld verið í samskiptum við eftirlitsstofnun EFTA vegna innleiðingar tilskipunarinnar. Þau samskipti leiddu m.a. til þess að umhverfis- og samgöngunefnd lagði til ákveðnar orðalagsbreytingar á ákvæðum kaflans á vorþingi 2022.

Í kjölfar samþykktar á lögum nr. 12/2021 hóf ráðuneytið vinnu við gerð reglugerðar um frekari útfærslu á framkvæmd laganna og var reglugerðin gefin út í desember 2022. Vinna við reglugerðina leiddi í ljós að nauðsynlegt var að gera enn frekari breytingu á kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er fjallar um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Með frumvarpi þessu er því verið að leggja til frekari breytingar á kaflanum sem tryggja enn frekar samræmi milli ákvæða laganna og tilskipunar 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu.

Eftirfarandi eru helstu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu:

Skýra verður betur landfræðilegt gildissvið kafla laganna þannig að ákvæðið vísi til yfirráðasvæðis Íslands. Í núgildandi ákvæði laganna er aðeins vísað til efnahagslögsögu og landgrunns Íslands sem ekki er talið fullnægjandi. Í tillögu frumvarpsins er því bætt við vísun til lands, innsævis og landhelgi Íslands.

Setja þarf skýrari mörk milli ákvæða um könnunarleyfi annars vegar og starfsleyfis til geymslu hins vegar. Ef kanna þarf mögulegt geymslusvæði fyrir koldíoxíð getur Umhverfisstofnun veitt könnunarleyfi. Það veitir handhafa könnunarleyfis einkarétt til könnunar á hugsanlegum geymslugeymi koldíoxíðs í tiltekin tíma auk forgangsréttar til starfsleyfis til geymslu á sama svæði að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Lagfæra þarf orðalag ákvæðis sem fjallar um flutning ábyrgðar á geymslusvæði eftir að því hefur verið lokað þannig að það verði skýrara.

Skýra þarf betur skilyrði fyrir aðgangi þriðja aðila að flutningskerfi og geymslusvæði. Samkvæmt núgildandi ákvæði kafla laganna er rekstraraðila heimilt að synja þriðja aðila um aðgang að flutningskerfi og geymslusvæði að teknu tilliti til tiltekinna viðmiða sem er að finna í ákvæðinu. Með breytingunni sem hér er lögð til ber rekstraraðila að veita aðgang að flutningskerfi og geymslusvæði án mismunar að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem fram koma í ákvæðinu. Einnig er lögð til þrenging á orðalagi í einu viðmiða ákvæðisins þar sem vísað er til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands.

Bæta þarf við ákvæðum um samráð ríkja við lausn deilumála þegar um er að ræða flutningskerfi og geymslusvæði sem falla undir fleiri en eitt ríki.

Bæta þarf við ákvæði um samstarf yfir landamæri. Lagt er til að ef koldíoxíð er flutt yfir landamæri eða ef geymslusvæðin eða geymslusamstæðurnar liggja yfir landamæri skuli lögbær yfirvöld hlutaðeigandi ríkja hafa með sér samstarf.

Bæta þarf við ákvæði um samsetningu koldíoxíðsstraums til geymslu. Samkvæmt ákvæðinu ber straumunum að vera að langmestu leyti úr koldíoxíði. Af þeim sökum má ekki bæta í hann úrgangi eða öðru efni í því skyni að farga úrganginum eða öðru efni. Það verður á ábyrgð rekstraraðila að sjá til þess að innihald koldíoxíðsstraums sé efnagreint og að fram fari áhættumat sem staðfesti að mengunarstig koldíoxíðsstraums sé í samræmi við kröfur ákvæðisins.

Skýra þarf betur að trygging rekstraraðila fyrir allri starfsemi á geymslusvæði sé að fjárhagslegum toga.

Að lokum er lagt til að Umhverfisstofnun verði veitt leyfi til að innheimta gjald vegna útgáfu könnunarleyfa en sú breyting er tilkomin vegna athugasemda Umhverfisstofnunar í samráðsferli frumvarpsins.

Ekki er gert ráð fyrir fjárhagsáhrifum hjá ríkissjóði vegna frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.