154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

689. mál
[19:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Örlítið í viðbót varðandi tvíhliða samning við Sviss. Mig langar aðallega að forvitnast hjá ráðherra hvort sambærilegir samningar séu í gildi við einhver önnur ríki eða hvort sá svissneski sé sá eini, einnig hvort ráðuneytið meti það þannig að það þurfi aðkomu ríkisins að því að gera svona samninga, sem sagt hvort staðan sé sú að starfsemin sem Carbfix sér fyrir sér í Straumsvík, Coda-miðstöðin, sé alltaf háð því að það sé tvíhliða samningur á milli Íslands og þess ríkis sem sendir hingað koltvísýring til niðurdælingar. Þetta er annað atriðið. Hitt er síðan varðandi upplýsingagjöf þegar og ef til niðurdælingar á innfluttum koltvísýringi kemur. Í reglugerð um geymslu koldíoxíðs í jörðu er fjallað um skrár og upplýsingar til almennings, þetta eru mjög almennar upplýsingar, umhverfisupplýsingar, sem þar er talað um að gera aðgengilegar almenningi. En eitt af því sem er einmitt gagnrýnt varðandi þessi viðskipti yfir landamæri með koltvíoxíð er skortur á gagnsæi. Þannig að ég velti fyrir mér hvort ráðuneytið hafi skoðað að bæta inn í þetta frumvarp einhverju skýrara ákvæði varðandi upplýsingar til almennings um það magn koltvísýrings sem er flutt inn til landsins eða uppruna hans eða annað sem getur mögulega orðið til þess að auka bara traust á kerfinu. Þetta snýst nefnilega þegar upp er staðið um að almenningur treysti því að hér sé verið að vinna til góðs og að orðspor Íslands laskist ekki við þennan innflutning. Í því skyni eru meiri upplýsingar betri en minni.