154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

689. mál
[19:43]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framhald andsvarsins. Mér finnst að vísu þegar kemur að upplýsingum og efni að frumvarpið taki ágætlega á því en við erum að fara í þessa vinnu, þessi hópur, til þess að móta okkur stefnu út af m.a. þeim álitaefnum eða þeim hlutum sem hv. þingmaður vísaði til en ýmsum fleirum líka. Hvar mun þetta liggja í bókhaldi? Verður þetta bara í bókhaldi í öðrum ríkjum ef til þess kemur að menn muni flytja koltvíoxíð frá öðrum löndum til landsins? Mun það kosta eitthvað viðkomandi ríki eða fyrirtæki sem framkvæma það? En aftur, þetta er bara partur af þessu, þetta er gríðarlega víðfeðmt fyrirkomulag sem er komið af stað. Flest af þessu eru frjálsir samningar. Þetta tengist fleiru en bara niðurdælingu þannig að við hv. þingmaður náum ekki að tæma það hér í stuttum andsvörum og jafnvel í ræðum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að frumvarpið komi fram þannig að við stígum þau skref að skýra regluverkið í kringum þetta, m.a. í nafni gagnsæis. Svo sannarlega snýst þetta alltaf um traust almennings og trúverðugleika landsins. En hv. þingmaður er að vísa til ýmissa hluta sem við eigum eftir að taka ákvörðun um og ég held að það sé best að taka ákvörðun með bestu mögulegu upplýsingum og þess vegna var sá vinnuhópur sem hv. þingmaður vísar til settur á laggirnar. Ég vonast til þess að hér verði góð umræða um niðurstöðuna þegar hún kemur og síðan þurfum við örugglega að gera ýmislegt í kjölfarið.