154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[13:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það bárust sannarlega margar umsagnir en þær voru nokkuð samkynja, þ.e. þær voru margar um sambærilega hluti, þannig að það er hægt að flokka þær umsagnir í nokkra flokka. Í samráðskafla frumvarpsins, 5. kafla, er yfirlit yfir bæði umsagnir og með hvaða hætti brugðist er við þeim, t.d. var sérstaklega bent á að dánarbú féllu ekki undir frumvarpið eða mengi þessa frumvarps og það er ábending sem við tókum til okkar vegna þess að dánarbú er lögaðili og lögaðili er ekki undir frumvarpinu en undantekning gerð á því hvað varðar dánarbúin.

Síðan eru umsagnir þar sem fjallað er um áhyggjur til að mynda af undanþágunni um að þú þurfir að hafa átt lögheimili í húsnæðinu til að fá það bætt. Hún er skýrð nánar og komið til móts við það og það sagt sem var hugsunin, en var mögulega ekki nægilega skýrt, að slíkar undanþágur eða beiðnir yrðu túlkaðar nokkuð rúmt, þ.e. þar sem andi laganna nær einfaldlega fram að ganga því aðstæður fólks geta verið mismunandi.

Síðan eru auðvitað atriði sem við erum ekki að verða við eins og því að þetta eigi ekki að vera 95% af brunabótamati heldur 100%. Það voru umsagnir líka um atvinnulífið sem er ekki verið að taka á hér og síðan eru það þessi tímamörk sem er eitthvað sem ég held að þingið þurfi einfaldlega að fjalla um. En við erum til að mynda ekki að verða við því að forkaupsrétturinn eigi við tveimur árum eftir að atburði lýkur vegna þess að það geta verið einhver misseri eða margir áratugir og það væri ekki ábyrgt að festa það inni á þessum tímapunkti. Þannig að sum atriði erum við í raun (Forseti hringir.) að útskýra betur, sem er gagnlegt og við verðum þá við þeim athugasemdum með því að við skýrum það betur í frumvarpinu. (Forseti hringir.) Öðru verðum við við og enn öðru ekki.