154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[14:20]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Það er stór stund að koma hingað í ræðustól og ræða þetta mikilvæga frumvarp til laga af því að orð okkar Grindvíkinga hefur eiginlega undanfarin fjögur ár verið óvissa; það er alltaf ein óvissa og svo kemur næsta óvissa. Við teljum okkur vera komin eitt skref áfram og með einhverja von um að ná að átta okkur á aðstæðum og þá förum við fimm skref aftur á bak. En ég held að stjórnvöld, í góðu samstarfi við Alþingi — ég vil líka þakka fyrir þann samtakamátt sem hefur verið hér innan Alþingis um að taka sameiginlega á þessum málum — séu með þessu frumvarpi að ná að losa einn af stóru áhættuþáttunum sem komið hafa yfir heimilin í Grindavík á þessum miklu náttúruhamfaratímum. Það er mjög mikilvægt að þetta mál sé komið fram og að okkur takist vel að leysa úr því hratt og örugglega af því að nú eru margir að bíða og margt komið af stað á grundvelli áforma um þetta frumvarp þannig að það skiptir miklu máli.

Ég vil byrja á að segja að almennt er ég mjög sáttur við hvernig þetta mál hefur verið unnið og hvernig það hefur þróast og hvernig það kemur fram. Það er almennt en samt mjög afmörkuð markmið í því að tryggja uppkaup á íbúðarhúsnæði til heimilishalds einstaklinga. Þegar verkefnin eru svona mörg og áskoranirnar margar og stórar skiptir miklu máli að afmarka sig svo að maður sé ekki reyna að leysa öll vandamál í einu máli og tefja það og missa fókusinn á því markmiði sem við erum að reyna að ná þannig að ég held að það sé gott að þetta mál sé svona afmarkað. Það hefur verið skilið eftir ýmiss konar svigrúm í frumvarpinu eins og er verið að ræða hér varðandi lögheimilisskráningu og íbúðir í byggingu, reglugerðarheimildir eru komnar hérna og það er ýmislegt sem er hægt að útfæra enn þá að til að reyna að grípa þau jaðartilvik. Ég held að það hafi tekist ágætlega. En svo eru líka mörg atriði sem tengjast þessu sem mun kannski ekki þurfa að leysa í frumvarpinu, er jafnvel hægt að leysa í samráði við bankana og lánastofnanir eins og um veðflutning og annað slíkt, það verður vonandi hægt að gera það, eitthvað varðandi skilyrði um greiðslumat og annað. Kannski þurfum við að skoða það án þess að mál komi hér inn. Og svo er ekkert útilokað að við þurfum að ræða í framhaldinu ef það eru stórir hópar sem munu þrátt fyrir þetta frumvarp — eru búnir að leysa sig undan sínum fjárhagslegu skuldbindingum en komast ekki inn á erfiðan húsnæðismarkað og þá þarf að taka sérstaklega á því. En því er ekki blandað hér inn. Eins og kemur fram í frumvarpinu er eitt atriði þó sem við þurfum að útfæra í lögunum áður en við klárum þau héðan frá Alþingi, það varðar þá sem eiga svokallaðan búseturétt, hvernig það er leyst. Það er tekið á því í frumvarpinu þannig að ég hef trú á því að nefndin geti klárað það í samráði við ráðuneytið. Ég held að það skipti miklu máli.

Auðvitað er margt sem maður hefði viljað að væri hægt að ganga lengra með og gera annað en þetta þarf að vera almennt og þetta þarf að vera skynsamlegt og það sem við gerum hér má ekki hafa almenn áhrif á vaxtastig í landinu. Það hjálpar ekki heldur íbúunum sem eru að fara inn á nýjan fasteignamarkað og annað slíkt þannig að við þurfum að hafa það allt saman í huga.

Það er eitt sem mig langar sérstaklega að nefna hérna af því að það hefur verið mikið rætt um undanþáguna frá lögheimilisskráningunni, að það er frekar rúm heimild hér og tekur á mörgum atriðum. En eins og við þekkjum þá hjálpast fjölskyldur oft að við að eignast húsnæði til að fjölskyldumeðlimir geti eignast sitt heimili. Oft kemur fyrirhyggja þar við sögu líka, fólk er að kaupa sér húsnæði sem það ætlar að flytja í vegna þess að það væntir breyttra aðstæðna eða að það ætlar að fara að minnka við sig, er búið að sjá draumaeignina en er ekki alveg tilbúið að taka stóra skrefið enn þá og hefur því keypt eignina og ekki enn náð að losa sig við æskuheimilið sem það byggði upp og annað slíkt, en það gæti þess vegna verið með tvær eignir.

Það er líka oft þannig að foreldrarnir skrá fyrst eign barnanna sinna á sig þar sem þau standast ekki greiðslumat og á meðan börnin eru að klára nám eða að vinna sér inn fyrir útborguninni og geta keypt húsið að fullu þá er það skráð á foreldrana þannig að það nýtir fyrstu kaupendaréttindin þegar þau kaup fara fram. Það er ýmislegt svona sem getur orsakað það að fjölskyldur eru skráðar fyrir tveimur heimilum. Þetta bið ég bara virðulega nefnd um að skoða í meðferðinni, hvort þetta rúmast innan þessarar undanþágu eða hvort það sé einhvern veginn hægt að mæta því. Þarna tel ég að við værum ekki að fara út fyrir markmið laganna þar sem er talað um að lögaðilar og þeir sem eru í atvinnustarfsemi verði teknir fyrir síðar eða á annan hátt þegar við vitum meira um þróun jarðhræringanna.

Ég veit til þess að bankarnir eru byrjaðir að vinna samkvæmt þessu frumvarpi og það er vel, þannig að einhver fasteignaviðskipti eru komin af stað. En fólk vill í svona stóru máli hafa sem mest á hreinu og vill hafa öryggið fyrir framan sig. Því held ég að það skipti miklu máli að þetta mál fari hratt og örugglega í gegn og að við náum að vinna það hratt til að þetta komist á hreint og það sé hægt að stofna félagið, það sé hægt að fara að framkvæma þetta þannig að ekki komi upp aukinn kostnaður við að þurfa að gera brúarlán eða að kaupsamningar falli úr gildi. Það er ýmislegt svona sem kemur upp. Líka að þegar fólk er á fasteignamarkaðnum þá viti það fyrir fullt og allt hvaða svigrúm það hefur. Í grunninn er þetta mál sem hjálpar fólki til að hjálpa sér sjálft, sem ég held að sé mikilvægt, að fólkið geti tekið ákvörðun um það hvar það býr fyrst það lendir í þessum aðstæðum. Það geti ákveðið sína framtíð, búið sér til nýjan núllpunkt og tekið svo aftur ákvörðun um það, þegar náttúran hefur látið af völdum og framtíð Grindavíkur kemur í ljós, hvort það komi aftur, verði þá búið að byggja sig upp aftur og vinna upp traust gagnvart því að flytja til baka, sem við vonum að sem flestum takist á einhverjum tímapunkti, og endurreisa bæinn.

En við þurfum líka bara að viðurkenna að þegar náttúran tekur völdin eins og hún hefur gert í Grindavík þá verður ekkert sanngjarnt. Það verður ekkert sanngjarnt í þessu. Sama hversu vel við munum útfæra þetta mál hér og ganga langt þá er þetta alltaf inngrip. Það mun enginn koma bættari út úr þessari stöðu. Það er að vonum mikið álag og oft tekjutap, mikill kostnaður við alla flutninga og öll fasteignaviðskipti og allar ráðstafanir á meðan þú hefur ekki húsnæði, þarft að leigja og búa annars staðar og flytja aftur og aftur og breyta um umhverfi, fara inn í nýtt skólaumhverfi, nýtt tómstundaumhverfi og jafnvel nýja atvinnu og annað slíkt.

Það er margt í gangi þannig að það verður seint hægt að horfa á þetta sem einu lausnina við þessu stóra máli. Og sama hvað við gerum þetta vel úr garði þá munum við því miður aldrei bæta öllum það tjón sem þeir verða fyrir. Það er bara þannig sem það er, raunveruleikinn, því miður, þó að okkur finnist það náttúrlega ósanngjarnt. Því er ég ánægður að þetta mál sé þó að þróast við þetta, að það svari þessari óvissu og sé þó að ná að ganga svona langt og taka á svona mörgum málum. Ég vona að ef eitthvað kemur upp í meðförum nefndarinnar sé hægt að laga það aðeins til, sem eru kannski aðallega þessi tvö atriði sem ég nefndi áðan varðandi þá sem eiga búseturétt og svo getur verið að einhverjir séu skráðir fyrir tveimur eignum, sem er bara svipað, má segja, að þeir sem eru að byggja sér nýtt hús, eru að fara að búa sér til nýtt heimili, verði skráðir tímabundið fyrir tveimur eignum. Við ætlum að taka á því hér í málinu þannig að ég held að við getum heimfært það upp á hitt líka.

Í lokin vil ég bara minna á að það er líka atriði sem fólk er að senda inn umsagnir um og hefur áhyggjur af, sem tengist kannski ekki málinu beint, sem er kannski að það sé komið fram við það hjá lánastofnunum eins og fyrstu íbúðarkaupendur, jafnvel hvort fólk geti fengið að njóta einhverra kjara sem fyrstu íbúðarkaupendur. Við þurfum bara að taka þá umræðu sér ef sú staða kemur upp, að það sé þörf á því og vilji til þess.

Svo varðandi lögaðilana þá hefur nú verið sagt að það eigi að klára úttekt á t.d. jörðinni, hvað eigum við að segja, jarðúttektina, athuga sprungurnar og holrúmið undir, hvernig þessir atburðir eru að þróast, hvernig er hægt að leyfa atvinnulífinu að aðlagast. Þegar meira kemur í ljós verður að taka frekari ákvarðanir um varanlegri úrræði fyrir atvinnulífið. En fyrst og fremst ætlum við að bjarga heimilum fólks og íbúunum, einstaklingunum. Þetta er gott framlag sem ég þakka fyrir og hefur verið vel unnið og ég treysti hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að klára málið og finna farsæla lausn á góðum tíma.