154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[14:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu hér í dag. Þetta eru svona spor sem held ég að ekkert okkar geti sett sig beinlínis í nema hafa upplifað slíkt. Sá sem hér talaði á undan mér er einmitt einn af þeim fáu í þinginu sem beinlínis varð fyrir þessu og fleiri hér, fyrrum félagar, sem maður hefur fylgst með takast á við þetta áfall sem við erum í rauninni að fjalla um að hluta, þ.e. hvernig við ætlum að bregðast við þessum afleiðingum af því að heilt samfélag er í rauninni bara hliðarsett sökum ástandsins. Það hefur sem betur verið einhugur um öll þessi mál sem við höfum verið að takast á við hér í þinginu og þetta mál líka. Þó að það sé risavaxið þá er í sjálfu sér einhugur um það og innan þessa þingmannahóps sérstaklega, ég var í honum ásamt einhverjum þeim sem hafa talað hér. Það skiptir máli að við áttum okkur á því að það verður aldrei hægt að gera svo öllum líki. Þetta er bara þess eðlis að það er ekki fræðilegur möguleiki að gera heilu bæjarfélagi til geðs eða koma til móts við allt það sem þar er undir.

Ég vil líka þakka ráðherra fyrir að bregðast þó þetta hratt við og sérfræðingum í ráðuneytinu sem við unnum með, þessi þingmannahópur, og þessar vangaveltur og þetta opna samtal sem átti sér stað skiptir máli. Það virkaði ágætlega þar sem fólk gat opnað sig og fengið svör við spurningum tiltölulega hratt af því að eins og hér kemur fram þá er þetta ekkert einfalt. Það var verið að tala um að fólk væri orðið óþreyjufullt sem ég skil svo sannarlega vel þegar allt er í uppnámi og fólk á jafnvel hvergi heima og er inni á öðru fólki. Þá vill maður auðvitað fá úrlausn sinna mála strax en það þarf líka að vanda til verka. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um að efnahags- og viðskiptanefnd þurfi að vinna þetta mjög hratt og vel og um leið taka á móti fólki, taka einhverjar stikkprufur af því fólki sem telur sig hafa orðið undir í því sem hér er tekið utan um. Það verður að segja það samt, og ég tek undir með ráðherra þegar hún talar um styrk og baráttuþrek Grindvíkinga af því að þetta, að horfa á eftir samfélaginu sínu dreifast um allt land í rauninni — ég heyrði einhvers staðar að börn væru í 32 skólum úti um allt land. Sumir eru búnir að koma sér fyrir, aðrir ekki. Þetta er allt saman mjög skrýtið og þegar maður er að hlusta, ekki síst á börnin sem maður hefur verið að tala við, þá finnur maður það einhvern veginn hvað þetta er mikilvægt. Þarna er auðvitað líka, eins og við þekkjum, mikið íþróttalíf og annað slíkt sem skiptir máli.

Það er heldur ekkert hægt að horfa fram hjá því þegar við erum að fjalla um þetta, af því að sagan er rakin ágætlega í þessu frumvarpi, að minnast á viðbragðsaðila og almannavarnir og þessa iðnaðarmenn sem hafa verið á svæðinu að vinna algert þrekvirki við að takast á við þær afleiðingar sem hafa orðið, ekki síst síðustu vikuna þegar heita vatnið fór af. Fyrir það ber að þakka því að það er ekkert einfalt að standa í slíku á svona svæði eins og þarna.

Hér hefur ansi margt verið rætt og kannski endurtekning á mörgu hverju. Ég er ánægð með að bankarnir, þetta er auðvitað fyrst og fremst Landsbankinn, að eigendur lána hafa hafið samtöl um yfirfærslu lána ef þeir eru komnir með eignir sem þeir hyggjast reyna að kaupa. Við ræddum í nefndinni stöðu fyrstu kaupenda, fólks sem var nýbúið að kaupa, í hvaða stöðu það væri núna í ljósi þess sem því fylgir þegar maður er að kaupa fyrstu eign, að geta gert það í rauninni aftur á sömu forsendum. Það getur skipt gríðarlega miklu máli því að þau eru kannski í enn verri stöðu en margur annar. Eins það fólk sem er að byggja og var jafnvel ekki flutt inn eða var ekki búið að fá afhent en var búið að kaupa. Það er margt í þessu og ég tek undir það með þingmanninum um þetta matskennda skilyrði um lögheimili að það þarf að horfa dálítið til þessara einstöku atriða sem sannarlega eru fyrir hendi. Svo er líka mikilvægt að halda því til haga sem ráðherra nefndi, að það er hægt að leita til úrskurðarnefndar með sérstök mál ef fólk er ekki sátt við niðurstöðuna.

Við ræddum líka að við erum að fá samtöl og hringingar og fólk er að spyrja hvort það megi nota húsið áfram sem sumarhús, hvort það megi slá blettinn eða hvað það megi gera til að halda húsinu við. Félagið hlýtur að þurfa að vera með lágmarksviðhald á húsunum sjálfum en ég trúi því ekki að fólki verði hent út af blettinum sínum kjósi það að slá hann, ef það vill gera svo.

Við ræddum líka þennan búseturétt í nefndinni og það skiptir máli að finna því einhvern farveg. Þú átt einhvern búseturétt, búinn að vera þar jafnvel í einhver tiltekin ár, og það þarf að finna út úr því. Kannski verður það hægt á milli umræðna, kannski þarf að gera það í sérstöku máli. Ég lít ekki svo á að þetta mál sé einhver endapunktur. Við erum að taka utan um fólkið og fyrst og fremst íbúðarhúsnæði. En rétt eins og við höfum verið að fjalla um mörg önnur mál hér þá er þetta ekki einhver endapunktur. Við vitum ekkert hvernig þessum málum lýkur og þess vegna getum við ekki einhvern veginn sagt að þetta sé lokaverkefnið í þessu. Eins og kemur hérna fram varðandi hversu margar íbúðir voru hér undir og hversu margar íbúðir ríkissjóður telur að þetta frumvarp nái til þá er það lunginn úr þessu sem um er að ræða. En eins og hér hefur komið fram þá skiptir máli að horfa á hitt.

Það er líka mikilvægt að hafa það í huga, þó að það sé kannski kalt að segja, að auðvitað þarf líka að bregðast við því hvaða áhrif þessi mikla tilfærsla fjármuna úr ríkissjóði hefur í rauninni á vexti og verðbólgu. Það er stórt verkefni sem hér er verið að reyna að mæta. Ég er ánægð með hvernig hugsunin er í fjármögnuninni. Ég held að það skipti máli hvað þetta varðar sérstaklega og af því að það kemur náttúrlega öllum vel, líka fyrir þá sem þurfa svo að endurfjármagna og kaupa sér nýtt húsnæði eða annað slíkt. Þetta skiptir okkur öll máli. Þess vegna þarf að hafa þessar aukaverkanir sem þetta óhjákvæmilega hefur í för með sér til hliðsjónar. Við erum svo með annað mál hér til umfjöllunar sem varðar Airbnb sem á að auka framboð á húsnæði, sem skiptir líka máli í þessu samhengi á þröngum markaði í húsnæðismálum og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Það verður auðvitað að mörgu að huga þegar fjallað verður um þetta mál. Það eru nú fjórir af níu nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd sem sátu í þessum þingmannahópi og fóru í gegnum þetta samtal allt saman sem ég held að komi sér vel þegar farið verður að vinna málið inni í nefndinni. Flestir þeirra hafa tengingu við Suðurnesin sem ég held að sé gott. Það hjálpar líka til að vera með fólkið nær sér og þekkja aðstæður og annað slíkt þegar kemur að því að vinna áfram með þetta. Ég er ánægð með, ég vil bara segja það hérna, hversu vel okkur hefur tekist á stuttum tíma að ná utan um þetta þrátt fyrir þrýsting á að reyna að gera það miklu fyrr en raunin varð. En hingað erum við komin. Þetta er eins og ég sagði að mínu mati a.m.k. ekki endapunktur og við þurfum að hlusta á sjónarmiðin og vita hvort það er eitthvað sem við getum mætt án þess að raska hér upplegginu sem er undir í þessu tiltekna frumvarpi.

Ég ætla að óska nefndinni velfarnaðar í vinnu sinni fram undan. Ég veit að það verður dálítið strembið en ég treysti því að hún vinni þetta hratt og vel. Ég tek undir með hæstv. forseta sem ræddi það hér áðan að vonandi náum við að klára þetta mál fyrir lok næstu viku. Það væri mikill fengur að því fyrir fólk að sjá endapunkt á þessu máli því að á meðan það er ekki fullklárað þá veit fólk auðvitað ekki nákvæmlega að hverju það gengur.