154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[14:57]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið. Ég vil bara fyrst og fremst þakka hæstv. ráðherra og samstarfshópnum fyrir glæsilega og frábæra vinnu og fyrir að gefa okkur þann tón hér í þinginu að standa saman að þessu verkefni sem er ærið og svakalegt. Þetta eru þung spor fyrir okkur, hvern einasta þingmann hér inni, að þurfa að standa í þessum sporum og þurfa að taka þessa ákvörðun. Hún mun auðvitað alltaf vera að einhverju leyti umdeild en þetta er niðurstaða sem hér hefur verið fengin í þinginu og mér finnst vinnan á bak við hana algerlega til fyrirmyndar.

Ég þekki þessi skref og hugur minn er hjá Grindvíkingum. Það búa margir við þröngan kost, eins og hér hefur komið fram. Það er verkefni bæði þings og okkar allra sem vinnum að þessu og hjálparaðila að koma þeim til hjálpar sem búa við skert húsnæði eða þröngt húsnæði, að bæta úr því eins fljótt og hægt er. Heimili hvers einasta manns og okkar allra er okkar heimahöfn, hvers og eins, og það er engin heimahöfn án atvinnulífs, virðulegur forseti. Það minnir okkur á að við þurfum að gera allt til þess að vekja þá von í brjósti að aftur geti hafist atvinnulíf í Grindavík. Til þess þurfa þeir sem stjórna atvinnulífinu þar að hafa aðgang að fyrirtækjunum. Það mun taka einhvern tíma og það er áhætta í því fólgin að koma atvinnufyrirtækjunum í gang en það er lífsneisti Grindvíkinga að þau komist af stað aftur.

Ég segi bara við Grindvíkinga: Ég vona að framtíðin muni gefa okkur það að við komumst allir aftur heim í okkar eigin heimahöfn. Ég segi: Takk fyrir okkur. Takk fyrir samstöðuna. Áfram Grindavík.