154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

Sjálfstæð rannsókn á aðdraganda slyssins í Grindavík í janúar sl.

[15:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ef ég skil hana rétt þá er hún að íhuga að setja á fót óháða rannsókn um allt almannavarnaviðbragð í kringum eldsumbrotin í nágrenni við Grindavík. Það er vel en ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða að fara í sjálfstæða og óháða rannsókn gagnvart tildrögum þessa slyss út af fyrir sig vegna þess sem ég minntist á áður, sérstakar skyldur sem stjórnvöld bera þegar kemur að andlátum sem bera að með óeðlilegum hætti. Það er mjög skýrt að það á að fara af stað sjálfstæð og óháð rannsókn þegar þau ber að. Síðan vil ég taka fram að rannsóknarnefnd almannavarna var samkvæmt fréttaflutningi lögð niður vegna þess að henni hafði aldrei verið gert kleift að sinna störfum sínum með fullnægjandi hætti vegna vanfjármögnunar og skorti á stuðning frá dómsmálaráðuneytinu. Nú er hins vegar kominn nýr dómsmálaráðherra og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Kemur til greina að setja á fót starfhæfa og sjálfstæða rannsóknarnefnd almannavarna að nýju?