154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til útlendingamála og ráðstafanir varðandi fjölskyldusameiningu fólks frá Gaza.

[15:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég skil ekki enn afstöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli því að orðin eru oft svo ólík gjörðunum. Sjálfstæðisflokkurinn lék aðalhlutverkið, hann skrifaði handritið, hann skrifaði lögin og dansana þótt hæstv. forsætisráðherra hafi hugsanlega séð um leikstjórn síðustu árin. Meira að segja landsfundur Sjálfstæðismanna minnti þá á að kannski væru einhverjir menn þar að gerast aðeins of lokaðir í þessum málaflokki og samþykkti stefnu undir yfirskriftinni Bjóðum þau velkomin. En hvað um það, ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar eins og Samfylkingin að skipta um áherslur í þessu þá fagna ég því. Ég hins vegar bið um skýrari svör við spurningum mínum um öryggisráðstafanir. Er það svo að íslensk stjórnvöld hafi sent egypskum stjórnvöldum einhvern lista yfir fólk sem stjórnvöld þar í landi hafa hugsanlega ekki hugmynd um hvert er og hafa íslensk stjórnvöld samhliða því sent ísraelskum stjórnvöldum lista yfir það fólk sem til stendur að flytja til Íslands?