154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

brottvísun fólks úr landi og eftirlit með landamærum.

[15:45]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir heiðarleg svör því að við vitum að það er fljótt að fréttast úti í hinum stóra heimi ef við höfum ekki það sem til þarf til að standa vörð um landamærin okkar.

Mig langar aðeins að vinda mér að Norðausturkjördæmi. Mikil uppbygging hefur verið síðustu misseri á flugvöllunum, bæði á Akureyri og Egilsstöðum. Millilandaflug kallar á aukna landamæravörslu en aukin hætta er á að einstaklingar sem hingað eiga ekkert erindi eða í tengslum við fíkniefni eigi auðveldara aðgengi í gegnum flugvelli landsbyggðarinnar. Mig langaði því til að spyrja hæstv. ráðherra: Telur ráðherra landamæraeftirlit nægjanlegt á umræddum flugvöllum? Einnig, hvernig ætlar ráðherra að tryggja landamærin? Þá er ég líka að horfa t.d. á Keflavíkurflugvöll. Telur ráðherra tilefni til að herða landamæraeftirlitið enn frekar og það strax?