154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[15:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2024 sem er að finna á þskj. 1074. Um er að ræða annað fjáraukalagafrumvarpið sem lagt er fram á þessu ári.

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa áhrif jarðhræringa og eldsumbrota á íbúa Grindavíkurbæjar komið æ betur í ljós. Eftir að bærinn var rýmdur vegna kvikuhlaups 10. nóvember síðastliðinn hafa orðið þrjú kvikuhlaup sem hafa leitt til eldgoss. Víða eru varasamar sprungur og skemmdir á mikilvægum innviðum. Landris heldur áfram og jarðvísindamenn útiloka ekki frekari sprungumyndanir og eldgos. Mikil óvissa ríkir um framvindu mála, land rís enn og alls óvíst hvenær Grindvíkingar geta flutt aftur heim.

Markmið þessa fjáraukalagafrumvarps er að verja fjárhag og velferð íbúa Grindavíkurbæjar og gefa einstaklingum kost á að losa sig undan þeirri áhættu sem fylgir eignarhaldi á íbúðarhúsnæði í bænum og eyða þannig að einhverju marki því óvissuástandi sem íbúar bæjarins hafa búið við undanfarna mánuði.

Í fyrsta fjáraukalagafrumvarpi ársins 2024, sem einnig var lagt fram vegna jarðhræringanna og samþykkt var á Alþingi 8. febrúar sl., var gert ráð fyrir tæplega 8,2 milljarða kr. aukningu fjárheimilda sem fjármagnaðar væru með almennum varasjóði og varða launagreiðslur og húsaleigustyrki til íbúa Grindavíkurbæjar og þeirra sem þar starfa og einnig rekstrarstuðning við fyrirtæki á svæðinu. Þá er í fjárlögum yfirstandandi árs gert ráð fyrir rúmum 3 milljörðum kr. í stuðningsaðgerðir við íbúa og rekstraraðila í Grindavíkurbæ. Þar vega launagreiðslur og húsnæðisstuðningur þyngst.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 5. og 6. gr. fjárlaga yfirstandandi árs. Frumvarpið er lagt fram í tengslum við annað frumvarp sem mælt var fyrir á Alþingi 15. febrúar sl. og varðar kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavíkurbæ. Í því frumvarpi er lagt til að einstaklingar sem falla undir gildissvið frumvarpsins geti selt íbúðarhúsnæði sitt innan þéttbýlisins í Grindavíkurbæ til sérstaks eignaumsýslufélags á vegum ríkisins sem komið verður á fót. Þá er mælt fyrir um ákveðið fyrirkomulag og skilyrði vegna kaupa, fjárhæðir greiðslna, umsýslu ríkisins á eignum sem keyptar eru af íbúum Grindavíkurbæjar og fjármögnun. Til að hægt sé að framkvæma það sem kemur fram í áðurnefndu frumvarpi er þörf á þessum viðbótarheimildum í 5. gr. vegna lántöku og endurlána auk heimildar í 6. gr. vegna stofnunar eignaumsýslufélags og eiginfjárframlags til félagsins til að standa undir þeim skuldbindingum sem því er ætlað.

Virðulegi forseti. Lagt er til að við 5. gr. bætist tveir nýir liðir vegna lántöku og endurlána. Annars vegar er lagt til að ríkissjóði verði heimilt að taka allt að 30 milljarða kr. lán til viðbótar þeirri lántöku sem gert er ráð fyrir í fjárlögum í því skyni að mæta mögulegri fjárþörf sökum jarðhræringa á Reykjanesi. Ekki liggur fyrir hvort og að hvaða marki kostnaður muni falla á ríkissjóð í þessu sambandi og því óvíst hvort heimildin yrði fullnýtt. Lántaka í þessu sambandi gæti verið tímabundin.

Hins vegar er lagt til að heimild verði veitt til þess að endurlána allt að 12,5 milljarð kr. til nýs eignaumsýslufélags sem ríkissjóður mun koma á fót um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavíkurbæ í samræmi við frumvarp þess efnis. Fjármagnsskipan félagsins er þannig að eigið fé þess verður nánast alfarið í eigu ríkissjóðs. Félagið nýtur þó ekki ríkisábyrgðar og því þarf að sækja sérstaklega heimildir vegna skuldbindinga sem félaginu er ætlað undirgangast. Félagið verður, til viðbótar við eiginfjárframlag ríkisins, fjármagnað með lánveitingu til félagsins frá ríkissjóði og helstu lánveitendum í Grindavíkurbæ sem verða aðilar að samkomulagi um heildarlausn vegna fyrirkomulags kaupa og fjármögnunar íbúðarhúsnæðis á svæðinu.

Með slíku samkomulagi er stuðlað að einfaldri lausn sem lágmarkar heildarkostnað við verkefnið eins og kostur er í réttu hlutfalli við undirliggjandi áhættu. Með hliðsjón af þessu hefur verið unnið að útfærslu samkomulags við lánveitendur sem felur í sér endurfjármögnun lána sem hvíla á eignum sem falla undir frumvarpið. Í samræmi við forsendur samkomulagsins er því annars vegar gert ráð fyrir að endurlán frá ríkissjóði nemi allt að 12,5 milljörðum kr. og hins vegar að framlag lánveitenda verði allt að 22,6 milljörðum kr. vegna endurfjármögnunar áhvílandi lána á íbúðarhúsum.

Lánin verða sameinuð í einu skuldaskjali sem gefið verður út á félagið. Lánið getur því numið allt að 35,1 milljarði kr. Endurgreiðsla heildarlánsins verður með fjársópsfyrirkomulagi, þ.e. að afrakstur af undirliggjandi eignum rennur til eigenda kröfunnar í réttum hlutföllum við útistandandi kröfufjárhæð. Greitt verður einu sinni á ári af láninu, þ.e. greiddir verða þeir fjármunir sem félagið hefur fengið vegna sölu eða leigu fasteigna eða vegna bótagreiðslna frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Tryggt verður að afborgun lánsins verði þó aldrei hærri fjárhæð en þannig að félagið haldi örugglega á nægilegum fjármunum til eðlilegs rekstrarkostnaðar næstu missera.

Þá er í frumvarpinu er lögð til ein breyting á heimildarákvæði 6. gr. fjárlaga. Lagt er til að við greinina bætist heimild til að koma á fót sérstöku eignaumsýslufélagi sem stofnað verður sem einkahlutafélag til að halda utan um það íbúðarhúsnæði sem keypt verður í Grindavíkurbæ. Áætlaður heildarkostnaður við þau kaup getur numið allt að 61 milljarði kr. Sá kostnaður verður fjármagnaður með eiginfjárframlagi og lánsheimildum. Þannig er ráðgert að leggja félaginu til hlutafé sem áætlað er að geti orðið allt að 25,9 milljarðar kr. til að standa undir kaupum á eignum. Upphæðin fer þó eftir fjölda og samsetningu þeirra sem ákveða að nýta sér úrræðið sem fellur undir gildissvið frumvarps sem lagt hefur verið fram um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavíkurbæ.

Miðað er við að stofnhlutafé félagsins verði um 5 milljarðar kr. til að byrja með og hlutafé verði aukið eftir því hvernig skuldbinding félagsins vegna kaupa á eignum raungerist. Hlutafjárframlag ríkissjóðs til félagsins vegna kaupa verður tekið í gegnum sjóðstreymi og birtist því sem samsvarandi eign á efnahagsreikningi. Fjármagnsskipan félagsins verður með þeim hætti að eigið fé þess verður nánast alfarið í eigu ríkissjóðs en miðað er við að lánveitendur eigna í Grindavíkurbæ eigi kost á að eignast óverulegan hlut í félaginu við stofnun þess.

Þá verður félagið einnig fjármagnað með sambankaláni, en bæði lánveitendur á svæðinu og ríkissjóður hafa aðkomu að því láni. Það felur í sér að allar tekjur félagsins, sem stafa af mögulegum vátryggingarbótum frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands eða mögulegum eignasölum, koma fyrst til niðurgreiðslu á sambankaláninu eftir greiðslu rekstrarkostnaðar, þar sem ríkissjóður er einnig með hlutdeild, samanber lánaheimild í 5. gr.

Tekjur félagsins fara því bæði til lánveitenda íbúðalána í Grindavíkurbæ og ríkissjóðs eftir hlutdeild aðila í sambankaláninu. Það sem eftir stendur þegar félagið er gert upp fer til ríkissjóðs sem eiganda félagsins. Gert er ráð fyrir að í samkomulagi við lánveitendur geti falist heimild þeirra til að auka við hlut sinn í félaginu gegn því að umbreyta lánum, eða hluta þeirra, í hlutafé eignaumsýslufélagsins. Lánveitendur kæmu þá með virkari hætti að umsýslu þessara eigna og ráðstöfun þeirra en þó er miðað við að ríkissjóður yrði ávallt meirihlutaeigandi í félaginu sem slíku. Þá mun félagið ekki njóta sérstakrar ríkisábyrgðar vegna þeirra verkefna sem því er ætlað að sinna.

Félagið verður flokkað innan A-hluta í heild en gera má ráð fyrir að félagið verði skilgreint sem A3-hluti innan ríkisins, samanber lög um opinber fjármál. Félagið mun því ekki hafa áhrif á skulda- og afkomumarkmið ríkissjóðs skv. 1. gr. fjárlaga.

Frú forseti ég hef nú lokið máli mínu og legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. fjárlaganefndar að lokinni þessari umræðu.