154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[16:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður erum einfaldlega í grundvallaratriðum ósammála um það hvernig eigi að mæta þeirri stöðu sem við erum í með tilliti til verðbólgu, vaxtastigs og ríkisfjármála. Þetta er heimildarákvæði. Við vitum ekki hvort það mun reyna á það eða ekki. Segjum að það myndi reyna á það. Þá skil ég hv. þingmann þannig að hann væri að leggja til að við myndum sækja þessar 30.000 milljónir til atvinnulífsins til þess að fjármagna þessa aðgerð á þessu ári. Það myndi ég telja stórkostlega ábyrgðarlaust. En ég vona að hv. þingmaður geti verið sammála mér í því að vandi ríkissjóðs er ekki tekjuvandi. Það er ekki þannig að við tökum svo litlar tekjur af vinnandi fólki og fyrirtækjum að við getum ekki staðið undir verkefnum sem við viljum standa undir. (EÁ: Hækka skatta.) Ég er ósammála hv. þingmanni í því að til þess að leysa vanda ríkissjóðs þurfi bara að hækka skatta enn frekar (Forseti hringir.) sem eru einna hæstir í heimi. Við getum farið miklu betur með þá peninga sem við tökum af fólki og fyrirtækjum. Við getum tekið til í ríkisrekstrinum. Við getum sameinað stofnanir, (Forseti hringir.) minnkað yfirbyggingu, selt eignir og einfaldlega verið með skilvirkari ríkisrekstur. Ég myndi óska að það væri frekari samstaða um það hér.

(Forseti (ÁsF): Forseti vill minna hæstv. ráðherra á tímann sem er ein mínúta.)