154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:31]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég ætla að nýta seinna andsvar mitt hér til að vekja athygli á þeirri óboðlegu stöðu sem er uppi varðandi mönnun löggæslu á Íslandi. Í dag starfa færri lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu heldur en þegar embættið var stofnað árið 2007. Alþingi þarf að vera mjög vel á verði gagnvart heimildum sem lögregla hefur til eftirlits og til þvingunarráðstafana í breyttum heimi og m.a. í tengslum við afbrotavarnir en það kemur ekki í staðinn fyrir það risastóra verkefni að fjölga lögreglumönnum og styrkja löggæsluna almennt. Við getum ekki stytt okkur einhverjar leiðir og látið það jafnvel bitna á borgaralegum réttindum fólks. Þannig að ég ætla að hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum um leið og ég lýsi stuðningi við markmið þessa frumvarps og hvet til að það verði rýnt (Forseti hringir.) mjög rækilega í þingnefndinni út frá þeim kröfum sem við gerum um borgaraleg réttindi.