154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Kári Gautason (Vg):

Frú forseti. Í gær birti Hagstofan rekstrar- og efnahagsyfirlit landbúnaðarins 2022. Það kom sumum í opna skjöldu að hagnaður hafði aukist frá árinu áður en fyrir þau okkar sem hafa fylgst grannt með landbúnaðinum komu þessar fréttir ekki á óvart. Það sem þessi meðaltöl dylja hins vegar er að breytileikinn er mjög mikill. Þau sem hafa litlar skuldir upplifa ágæta afkomu í sögulegu samhengi þótt flestu launafólki á Íslandi myndi þykja tímakaupið lágt. En þau sem hafa nýlega fjárfest eða tekið við búskap og sitja á miklum skuldum berjast einfaldlega í bökkum. Með öðrum orðum: Eignaójöfnuður er mikill í landbúnaði á Íslandi. Það er ekkert séríslenskt fyrirbrigði. Nýlega skrifaði franski hagfræðingurinn Thomas Piketty um eignaójöfnuð meðal franskra bænda en í Evrópu hafa bændur frá austri til vesturs mótmælt bágri afkomu, enda versnaði staða þeirra verulega á síðasta ári með lækkandi afurðaverði. Hér á landi hefur ríkisstjórnin hins vegar komið að nokkru leyti til móts við stöðu þeirra í landbúnaði sem hafa fjárfest eða tekið við búum með sérstökum framlögum þar sem sérstaklega var horft til stöðu nýliða. Það var mikilvægt skref í því að viðurkenna þessa stöðu.

Fleira þarf að ræða sem tengist þessu atriði, eignaójöfnuðinum, þar á meðal þá staðreynd að hluti stuðningsgreiðslna í landbúnaði er framseljanlegur milli aðila sem gerir auðvitað ekkert annað en að ýkja stöðuna enn frekar. Því greiðari leið að fjármögnun sem bændur hafa, því meiri er munurinn á milli þeirra sem eiga mikið og eiga lítið. Síðustu ár hafa stjórnvöld stigið stór skref í því að skýra stefnumörkun í landbúnaðinum. Alþingi samþykkti á síðasta ári tillögu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að landbúnaðarstefnu í fyrsta skipti. Verkefni næstu missera er að hanna nýtt stuðningskerfi sem tekst á við raunverulegar áskoranir landbúnaðar, þ.m.t. eignaójöfnuð sem gerir nýliðun erfiða.