154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er verðbólga í landinu en það er líka verðbólga í yfirlýsingum, m.a. þegar kemur að útlendingamálum. Ég vil segja það hér, með nokkra reynslu í farteskinu og eftir að hafa séð ýmislegt í gegnum árin, að ég tel óskynsamlegt af okkur hér í þessum þingsal að gera útlendingamálin að kosningamáli. Það væri áfellisdómur að mínu mati yfir okkur í pólitík að geta ekki ráðið fram úr því að leysa umgjörðina utan um fólk sem vill flytja hingað eða koma hingað. Það þarf einfaldlega að mínu mati að bretta upp ermar þvert á flokka. Til þess vorum við kosin. Auðvitað eru ýmsir hér sem vilja gera þetta að kosningamáli, vilja fara í yfirboð á yfirlýsingum. Ég vil reyna að koma skynseminni inn í þetta, mennskunni, raunsæinu og að við tölum hér saman, af því að ég tel styttra á milli flokka hér í þinginu heldur en fólk mætti ætla miðað við yfirlýsingar. Það tapa allir á því að gera útlendingamál að kosningamáli. Þess vegna eigum við að einbeita okkur að því að reyna að setjast niður, fara heildstætt yfir þetta og fara í gegnum málið þannig að við skilum ákveðnum yfirlýsingum og niðurstöðu út í samfélagið sem gerir okkur öflugri til skemmri og lengri tíma.

Ég vil fara í kosningar til að ræða stöðu heimilanna, ég vil fara í kosningar til þess að ræða um nýjan gjaldmiðil, ég vil fara í kosningar til að ræða orkuskipti, orkumál, atvinnustefnu, mikilvægi þess að vera með skynsamlega og hóflega skattheimtu, ræða um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu, ræða menntamál. Það eru mörg flókin viðfangsefni sem við þingmenn fáumst við á hverjum degi. Útlendingamál eru ekki það flóknasta. Það er val að gera þau að kosningamáli. Það er val að láta öfgarnar og bólgnar yfirlýsingarnar ráða. Ég vil láta skynsemina ráða. Ég vil að við verðum raunsæ í nálgun okkar og að við sýnum mennsku og mannúð. Ég vil vinna þannig og ég hvet alla þingmenn og þingheim (Forseti hringir.) til að vinna ötullega að þessu máli þannig að við getum síðan líka farið að ræða önnur mál.