154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við lifum í samfélagi þar sem mönnum þykir sjálfsagt að senda typpamyndir til ókunnugra kvenna, ýmist til að valda þeim óhug eða af því að þeir telja það ásættanlegt samskiptaform. Þar sem það þykir ásættanlegra að klám móti viðhorf barna og ungmenna til kynlífs en að þau sem vilja horfa á klám þurfi að velja það sjálf með nokkrum einföldum netaðgerðum. Þar sem sá sem á nektarmynd af ungri konu heldur ekki bara á vopni til að meiða hana persónulega heldur líka til að skaða starfsframa hennar og framtíðarmöguleika. Þar sem sjö tilfelli heimilisofbeldis eru tilkynnt til lögreglu á hverjum degi. Þar sem ferlið við að kæra nauðgun er þungbært og erfitt og sakfellingarhlutfall í slíkum kærum er 3,48% og ákærðir eru saklausir uns sekt er sönnuð og gætu jafnvel átt von á skaðabótum. Þar sem litlar stúlkur eru tældar af manni sem gæti verið afi þeirra til að senda honum myndir af sér við kynferðislegar athafnir og slíkt athæfi passar ekki inn í þyngsta refsiramma. Þar sem maður getur veitt konu áverka þannig að henni blæðir næstum út og haldið því fram og fengið staðfest fyrir dómi að þessir áverkar séu til komnir í samþykktum, kynferðislegum athöfnum. Þessi maður, dæmdur fyrir ofbeldi gegn konu, fær reynslulausn undir rafrænu eftirliti og er kominn heim til hennar með ökklaband þremur dögum síðar til að brjóta á henni að nýju. Þar sem maður tekur konu kyrkingartaki, sparkar í höfuð hennar og hnakka, hrindir henni niður stiga, heldur höfði hennar undir vatni og hótar henni ítrekað lífláti en er samt ekki talinn hafa ætlað sér að drepa hana og er sleppt úr haldi.

Virðulegi forseti. Þetta eru allt dæmi úr fréttaflutningi síðustu daga. Við getum ekki haft þetta svona. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)