154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

27. mál
[15:53]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Það verður að fagna því að farið sé í endurskoðun laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Umrædd lög voru sett í kjölfar bankahrunsins 2008 með því yfirlýsta markmiði að leysa úr greiðsluerfiðleikum og skuldavanda sem fjöldi einstaklinga og heimila lenti í vegna afleiðinga þess. Samhliða þeim var komið á fót embætti umboðsmanns skuldara sem var falið að veita atbeina til umleitana til samninga um greiðsluaðlögun á grundvelli laganna. Þrátt fyrir þessi háleitu markmið er ljóst að þessi lög reyndust hvergi nærri nógu vel til að leysa vanda allra þeirra sem þurftu á því að halda á sínum tíma og endurskoðun þessi er því löngu tímabær.

Frá gildistöku laganna hefur fengist talsverð reynsla af framkvæmd þeirra, bæði jákvæð og neikvæð eftir atvikum. Fyrst um sinn var gríðarleg ásókn í greiðsluaðlögun vegna þeirrar örvæntingar sem þúsundir heimila stóðu frammi fyrir þá sem leiddi til mikils álags á starfsfólk umboðsmanns skuldara og þá aðila sem falið var hlutverk umsjónarmanna með greiðsluaðlögun sem í mörgum tilfellum voru ekki starfsmenn umboðsmanns skuldara heldur utanaðkomandi lögmenn sem voru fengnir til að taka slík verkefni að sér. Eftir það hefur í áranna rás dregið smám saman úr ásókn í úrræðið og á allra síðustu árum hafa umsóknir um aðstoð umboðsmanns skuldara verið mun færri en í fyrstu og jafnan vegna eðlisólíkra erfiðleika, t.d. hefur umsækjendum um húsnæðislán fækkað mikið og á síðustu árum hafa flestir þeirra verið á leigumarkaði.

Ég ætla í þessari ræðu minni að rekja ýmis sjónarmið sem Hagsmunasamtök heimilanna vildu leggja áherslu á í tengslum við endurskoðun ofangreindra laga og sendu í samráðsgátt í júlí í fyrra. Því miður var ekki tekið tillit til neinna athugasemda og ábendinga hagsmunasamtakanna nema að mjög litlu leyti og þá aðeins varðandi búsetu- og lögheimilisskilyrði. Það er verulega miður að þannig hafi farið í meðförum þessa frumvarps því að það eru fáir ef nokkrir aðilar eða samtök á Íslandi sem þekkja áhrif og afleiðingar þessara laga á einstaklinga í greiðsluvanda og vita betur en flestir hvar skórinn kreppir.

Helstu efnisatriði eftirfarandi umfjöllunar hagsmunasamtakanna voru: Búsetu- og lögheimilisskilyrði, kröfur utan greiðsluaðlögunar, synjunar- og niðurfellingarástæður, sala fasteigna umsækjenda, frestun greiðslna og meðferð krafna, réttindagæsla fyrir umsækjendur og eftirfylgni um afdrif umsækjenda.

Fyrst um búsetu- og lögheimilisskilyrði. Í gildandi lögum geta þeir einir leitað greiðsluaðlögunar sem eiga lögheimili og eru búsettir á Íslandi. Eftir bankahrunið var algengt að einstaklingar sem lentu í vanda, svo sem vegna atvinnuleysis, flyttu af landi brott og þá gjarnan til hinna Norðurlandanna til að leita sér að vinnu og reyna að hefja nýtt líf. Sumir þeirra sem það gerðu hafa þó engu að síður mátt sitja undir innheimtuaðgerðum eftir að hafa misst heimili sín og allar eigur á Íslandi því að þá hafa kröfuhafar leitað til erlendra innheimtuaðila í viðkomandi löndum og falið þeim að innheimta meintar kröfur á hendur þeim einstaklingum. Þessir einstaklingar hafa stundum reynt að leita greiðsluaðlögunar til að leysa úr þeim skuldavanda, sem þannig elti þá til hins nýja heimalands eins og gamall draugur, en án undantekninga verið synjað um greiðsluaðlögun á grundvelli laga. Þannig hafa viðkomandi einstaklingar ekki setið við sama borð og einstaklingar búsettir á Íslandi og fyrir vikið lent í lakari stöðu en ella.

Hagsmunasamtökin hafa margoft bent á að þetta feli í sér mismunun á grundvelli búsetu sem vandséð er að samræmist reglum EES-samningsins um frjálst flæði fólks og bann við slíkri mismunun. Það er því fagnaðarefni að verið sé að rýmka umrætt búsetu- og lögheimilisskilyrði þótt það sé ekki afnumið að fullu eins og samtökin óskuðu eftir. En a.m.k. er lagt til í frumvarpinu að heimilt verði að víkja frá skilyrði um lögheimili og búsetu hér á landi að vissum skilyrðum uppfylltum, þ.e. þeim að upplýsingar um fjárhagsstöðu skuldara erlendis liggi fyrir, að hann skuldi ekki eða í óverulegum mæli erlendum kröfuhöfum og eigi ekki húsnæði eða aðrar eignir með umtalsvert verðgildi utan Íslands nema ljóst sé að eignastaða valdi ekki vandkvæðum í greiðsluaðlögunarumleitunum.

Þó að þetta sé til mikilla bóta er þetta samt það matskennt í frumvarpinu að það er ekki ljóst fyrr en á það reynir í framkvæmd hvenær og hvernig þessi undanþáguheimild yrði nýtt og þá yrði að styðjast við skýringar að baki ákvæðinu í greinargerð frumvarpsins. Af þessu tilefni er rétt að benda á að sambærilegt skilyrði um lögheimili á Íslandi kemur fram í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, en það hefur komið í veg fyrir að einstaklingar sem hafa flutt til annarra landa hafi getað leitað gjaldþrotaskipta eða nauðasamninga vegna atvika sem hafa orðið hér á landi. Þó að gjaldþrotalögin falli e.t.v. utan þeirrar endurskoðunar sem hér er þá er full ástæða til að hugað verði að þessu í samráði við dómsmálaráðuneytið, einkum vegna tengsla við úrræði umboðsmanns skuldara á grundvelli laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.

Þá komum við að kröfum utan greiðsluaðlögunar. Vissar kröfur standa utan greiðsluaðlögunar, þar á meðal kröfur vegna námslána og skuldir við opinbera aðila vegna meðlags. Þegar einstaklingar hafa leitað til Hagsmunasamtaka heimilanna vegna greiðsluerfiðleika í tengslum við skuldir af einkaréttarlegum toga, svo sem vegna húsnæðislána og neytendalána, er algengt að þeir standi einnig frammi fyrir óviðráðanlegum skuldum vegna námslána eða meðlagsskulda, enda er augljóst að þegar erfitt er að standa í skilum skiptir engu máli hvers konar skuldir er þá um að ræða. Þess vegna er mikilvægt að kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga af námslánum falli innan greiðsluaðlögunar eins og er áformað við umrædda endurskoðun. En það þarf að ganga lengra en það og sjá til þess að allar kröfur vegna námslána og meðlagsskuldir við opinbera aðila geti fallið undir greiðsluaðlögun til að auka líkurnar á því að það markmið náist að leysa greiðsluerfiðleika umsækjenda um greiðsluaðlögun. Í því sambandi má benda á að í lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, sbr. lög nr. 45/2023 og reglugerð á grundvelli þeirra laga, er að finna ýmis ákvæði sem heimila ívilnanir og jafnvel niðurfellingu skulda vegna fjárhagslegra erfiðleika. Þessi úrræði mætti samræma við greiðsluaðlögun með því að fella slíkar skuldir þar undir eða kveða á um samstarf á milli umboðsmanns skuldara og aðila sem hafa með höndum innheimtu þeirra til að ná fram heildstæðri úrlausn. Þótt það falli e.t.v. utan þeirrar endurskoðunar sem hér um ræðir er rétt að ítreka nauðsyn þess að fella brott undanþágu námslána frá fyrningaráhrifum gjaldþrotaskipta skv. 26. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020. Huga mætti að þessu í samráði við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti í tengslum við yfirstandandi endurskoðun þeirra laga.

Þá komum við að synjunar- og niðurfellingarástæðum. Það er ótrúlegt að í 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga eru taldar upp í 12 liðum ýmsar ástæður til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar en hvergi í lögunum er fjallað á svipaðan hátt um ástæður til að samþykkja heimild til greiðsluaðlögunar. Þessar synjunarástæður eru víðtækar og margar þeirra opnar fyrir túlkun sem hefur leitt til þess að þeim hefur stundum verið beitt með ósanngjörnum hætti fyrir umsækjendur. Sem dæmi má nefna að umsækjandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans.

Nú er það svo að það eitt að reyna að eignast húsnæði til að koma þaki yfir höfuð sér og fjölskyldu sinni hér á landi hefur nánast alltaf haft í för með sér umtalsverða áhættu. Sú sem hér stendur hefur oft lýst því sem áhættusömustu fjárfestingu í heimi að koma sér þaki yfir höfuðið á Íslandi, enda skipta dæmin sem styðja þá skoðun mína tugþúsundum. Þegar aðstæður hafa breyst til hins verra vegna aðstæðna sem almenningur ber enga ábyrgð á, eins og t.d. í kjölfar bankahrunsins og þess sem við horfum upp á núna, hafa iðulega komið fram viðhorf á þá leið að þeir sem lenda í vandanum geti sjálfum sér um kennt, að þeir hafi lifað um efni fram eða reist sér hurðarás um öxl. Því miður endurspeglast slík viðhorf í umræddri 6. gr. En hver er í raun þess umkominn að leggja mat á hvað sé óhófleg áhættutaka í landi þar sem öflun húsnæðis er næstum alltaf fjárhættuspil fyrir stóran hluta almennings? Að standa frammi fyrir því að ráða ekki við skuldbindingar sínar og eiga það jafnvel á hættu að missa heimili sitt er mikið áfall fyrir fólk sem lendir í slíku. Að viðurkenna það fyrir sjálfum sér að maður ráði ekki við slíkan vanda og svo fyrir öðrum með því að sækjast eftir hjálp til að leysa úr stöðunni er afskaplega auðmýkjandi. Að þurfa svo að gangast undir ítarlega skoðun á einkahögum sínum og reyna að uppfylla ströng skilyrði til að geta fengið einhverja aðstoð getur jafnframt verið beinlínis niðurlægjandi lífsreynsla. Það er því ljóst að enginn gerir það af léttúð að sækja um úrræði eins og greiðsluaðlögun með öllum þeim áhrifum sem því fylgja.

Þess vegna legg ég til að 6. gr. verði breytt þannig að heiti ákvæðisins verði Samþykkt heimildar til greiðsluaðlögunar og að meginreglan verði sú að samþykkja skuli umsókn um greiðsluaðlögun. Aftur á móti þurfi mikið að koma til svo að umsókn verði synjað og að ástæður til þess verði skilgreindar sem undantekningar. Að sama skapi eru í 12. gr. laganna taldar upp ýmsar skyldur sem umsækjandi skal undirgangast á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða og segja upp samningum um útgjöld í framtíðinni sem ekki tengjast vöru og þjónustu sem er nauðsynleg honum eða heimili hans til lífsviðurværis eða eðlilegs heimilishalds. Bregðist umsækjandi þessum skyldum er hægt að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Þessi ákvæði eru einnig opin fyrir túlkun og eru dæmi um að í framkvæmd hafi þeim verið beitt með íþyngjandi og jafnvel niðurlægjandi hætti. Sem dæmi má nefna að umleitanir hafa verið felldar niður af léttvægum ástæðum á borð við að umsækjandi hafi keypt áskrift að teiknimyndasögum fyrir börnin sín. Þannig er raunverulegt dæmi um að áskrift að teiknimyndabókunum Syrpu fyrir níu ára barn hafi verið nóg til þess að greiðsluaðlögun væri hafnað því að, eins og viðkomandi ráðgjafi sagði með nokkrum þjósti: Það er hægt að lifa án þess að fá Syrpur. Foreldrarnir sögðu upp áskriftinni. Ég tek að sjálfsögðu undir með Hagsmunasamtökum heimilanna og legg til að þessi skilyrði verði skilgreind betur þannig að þau verði ekki til að þrengja um of að möguleikum umsækjanda og fjölskyldu hans til að lifa einhvers konar eðlilegu lífi og að allan vafa þar að lútandi skuli túlka honum í vil.

Þá er það varðandi sölu fasteigna umsækjenda. Skv. 13. gr. laganna getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli eignir skuldara sem hann telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þetta ákvæði er opið fyrir túlkun og dæmi eru um að því hafi verið beitt á íþyngjandi og niðurlægjandi hátt, svo sem með því að fyrirskipa umsækjanda að losa sig við gæludýr. Samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni skuldara voru 422 fasteignir umsækjenda um greiðsluaðlögun seldar á þessum grundvelli á tímabilinu 2010–2017. Hvernig í ósköpunum getur það verið lausn á vanda fólks að gera því að selja heimili sitt?

Að undanförnu hafa verðbólga og vextir tekið miklum hækkunum á stuttu tímabili með tilheyrandi áhrifum á húsnæðiskostnað heimilanna, hvort sem um er að ræða leiguhúsnæði eða eigið húsnæði sem við fjármögnum með húsnæðislánum. Þessar hækkanir eru þegar byrjaðar að þrengja talsvert að fjárhagsstöðu margra heimila og ljóst er að þeim mun fara fjölgandi á næstunni, nú þegar vextir eru farnir að losna á lánum þeirra sem náðu að semja um að festa þá tímabundið áður en vaxtahækkanir hófust á nýjum lánum og lánum með breytilegum vöxtum. Þannig hafa mörg þúsund heimili staðið frammi fyrir stökkbreytingum á greiðslubyrði á undanförnum mánuðum og fleiri munu því miður bætast í þann hóp á næstu misserum. Það sem er þó ólíkt því ástandi sem skapaðist í kjölfar bankahrunsins, þegar þúsundir misstu húsnæði sitt, er að núna er mikill skortur á húsnæði hér á landi og má segja sem svo að það sé nú þegar nánast allt uppselt. Það er því full ástæða til að hafa áhyggjur af því að ef fram heldur sem horfir geti komið upp sú staða að þau sem ekki ráða við stökkbreytta greiðslubyrði og gætu misst húsnæði sitt myndu raunverulega hafa í engin önnur hús að venda og lendi einfaldlega á götunni. Þess vegna lögðu hagsmunasamtökin það til að við 13. gr. laganna verði bætt áskilnaði um að forðast skuli eins og frekast er kostur að knýja umsækjanda um greiðsluaðlögun til að selja húsnæði sitt nema í algerum undantekningartilfellum og þá ef hægt er að sýna fram á að hann geti keypt ódýrara eða viðunandi húsnæði í staðinn og leyst þannig úr vandanum.

Þá komum við að frestun greiðslna og meðferð krafna. Skv. 1. mgr. 11. gr. laganna hefst tímabundin frestun greiðslna þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun en skv. 2. mgr. falla þá vextir á skuldir meðan á frestun stendur en þeir eru þó ekki gjaldkræfir. Lengi vel túlkuðu sumir kröfuhafar þetta þannig að þeir gætu engu að síður krafðist dráttarvaxta fyrir það tímabil sem frestun greiðslna stóð yfir en það var ekki fyrr en með dómi Hæstaréttar Íslands 8. mars 2018 í máli nr. 159/2017 sem allur vafi var tekinn af um að það væri ekki heimilt, heldur mætti aðeins krefjast samningsvaxta. Skv. 3. mgr. 3. gr. laganna á greiðsluaðlögun jafnframt að leiða til brottfalls skulda sem hefðu orðið eftirstaðan við gjaldþrotaskipti en þar á meðal eru vextir, verðbætur og fleira. Allur gangur virðist hafa verið á því hvort gætt sé að þessu en sýnishorn af samningum um greiðsluaðlögun sem borist hafa Hagsmunasamtökum heimilanna benda til þess að svo hafi alls ekki alltaf verið. Þá eru fjölmörg dæmi um að einstaklingar sem hafa verið lengi í greiðsluaðlögunarferli en að lokum verið synjað eða samningar ekki náðst hafi þá setið uppi með mun hærri skuldastöðu en þegar þeir sóttu um úrræði vegna uppsafnaðra vaxta þannig að vandi þeirra versnaði aðeins fyrir vikið. Það er augljóslega engum greiði gerður með því að kveða á um frestun greiðslna á meðan umleitanir um greiðsluaðlögun standa yfir sem leiðir svo til þess eins að vextir hlaðast upp og hækka þær skuldir sem þá þegar voru orðnar óviðráðanlegar og þess valdandi að skuldarinn þurfti að leita greiðsluaðlögunar. Því lögðu hagsmunasamtökin til að umræddum ákvæðum yrði breytt og í stað frestunar á greiðslum yrði kveðið á um algjöra frystingu skulda á meðan leitað yrði greiðsluaðlögunar og allt þar til því ferli væri lokið, hvort sem það leiddi til samnings um greiðsluaðlögun eða ekki. Með því er átt við að á meðan verið sé að vinna úr umsókn um greiðsluaðlögun falli hvorki vextir né verðbætur á skuldir umsækjanda.

Þá komum við að réttindagæslu fyrir umsækjendur. Meðal þess sem hagsmunasamtökin hafa gagnrýnt við greiðsluaðlögunarúrræðið er að hvergi í ferlinu er gætt að því hvort þær kröfur sem umsækjendur eru krafðir um að greiða séu á lögmætum grunni reistar. Þetta átti ekki síst við í kjölfar bankahrunsins þegar smám saman kom í ljós að umtalsverður hluti lána sem fjármálafyrirtæki höfðu veitt voru með ólöglegum skilmálum og uppreiknuð staða skulda var í þeim tilvikum mun hærri en ef farið hefði verið að lögum. Þetta getur einnig átt við þegar ekki hefur verið gætt að reglum um fyrningu, svo sem vegna vaxta sem hafa mun styttri fyrningartíma en höfuðstóll kröfu vegna peningaláns. Fyrir vikið enduðu mörg slík álitamál á borði Hagsmunasamtaka heimilanna í stað umboðsmanns skuldara.

Greiðsluaðlögun einstaklinga hefur því miður ekki reynst vera sú töfralausn á skuldavanda sem var gefið í skyn af hálfu stjórnvalda að úrræðið yrði þegar það var kynnt í upphafi. Það skýrist að nokkru leyti af því að hvergi í löggjöfinni er gert ráð fyrir greiningu á lögmæti þeirra krafna sem kröfuhafar myndu lýsa á hendur umsækjendum. Jafnframt var embættinu, sem var komið á fót til að fara með framkvæmd úrræðisins, valin nafngift sem er beinlínis villandi, þ.e. umboðsmaður skuldara. Samkvæmt skilgreiningu hugtaksins er umboðsmaður einhver sem tekur að sér að vera staðgengill umbjóðanda síns og gæta hagsmuna hans og réttinda til hins ýtrasta, svo sem fyrir dómstólum eða í samningaviðræðum og samningagerð við gagnaðila umbjóðandans. Þessi skilgreining lýsir alls ekki vel hlutverki umboðsmanns skuldara eins og það hefur verið framkvæmt af hálfu embættisins. Þess í stað hefur það starfað eins og milligönguaðili á milli skuldara og kröfuhafa sem einbeitir sér að því að leggja mat á hversu mikið sé hægt að láta umsækjendur greiða og ganga frá samningum við kröfuhafa þar að lútandi, sem á mun meira sameiginlegt með nauðasamningum en gæslu hagsmuna og réttinda. Sú sem hér stendur hefur stundum sagt að umboðsmaður skuldara matreiði skuldara fyrir bankana. Sú lýsing hefur því miður allt of oft átt við. Til að bæta úr þessu þyrfti að fela umboðsmanni skuldara viðeigandi valdheimildir til réttindagæslu í þágu umsækjenda.

Að lokum er rétt að fjalla um eftirfylgni og afdrif umsækjenda. Að fenginni nokkurri reynslu af framkvæmd greiðsluaðlögunarmála virðist skorta talsvert á eftirfylgni með málefnum umsækjenda eftir að umsóknir þeirra hafa fengið afgreiðslu. Sem dæmi um slík mál sem hafa komið á borð Hagsmunasamtaka heimilanna má nefna tilvik þar sem í samningi var kveðið á um niðurfellingu hluta veðskulda að samningstímabili loknu þegar samningur um greiðsluaðlögun hafði verið efndur að fullu en viðkomandi vissi ekki hvert ætti að snúa sér og rakst á ýmsar hindranir í því ferli.

Fleira mætti nefna en nú ætla ég aðeins að hlaupa yfir og segja: Eins og ég sagði í upphafi hafa fáir jafn mikla reynslu af greiðsluaðlögun einstaklinga og Hagsmunasamtök heimilanna. Þau hafa, svo að það sé sagt, hjálpað álíka mörgum og umboðsmaður skuldara þrátt fyrir að vera grasrótar- og sjálfboðaliðasamtök með aðeins eitt og hálft stöðugildi. Það eru því mikil vonbrigði að ekki sé gætt betur að athugasemdum hagsmunasamtaka sem þekkja lögin um greiðsluaðlögun einstaklinga betur en flestir aðrir, kosti þeirra og galla ásamt afleiðingum þeirra. Ég hvet hv. velferðarnefnd eindregið til að lesa umsagnir þeirra, (Forseti hringir.) ekki síst umsögnina sem þau sendu í samráðsgátt í júlí á síðasta ári.