154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

höfundalög.

624. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Tiltölulega einfalt en stórt frumvarp þegar allt kemur til alls. Flutningsmenn ásamt mér eru Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Þetta frumvarp skiptist í þrennt og snýst dálítið um að framtíðin er núna, til að byrja með að hver einn og einasti hafi í rauninni höfundarrétt á sjálfum sér, þ.e. að ef einhver reynir að gera það sem mætti kalla raunverulega endurgerð, stafræna eða eitthvað því um líkt, af viðkomandi þá sé það óleyfilegt án samþykkis viðkomandi. Þetta kemur ekki í veg fyrir skrumskælingu eða skopmyndateikningar eða eitthvað svoleiðis, eitthvað sem er augljóslega ekki ætlað að sýna raunveruleikann sem slíkan eða þ.e. að ætla viðkomandi sem er búinn til að hafa gert eitthvað sem er hannað — að láta sem það sé raunverulegt, eins og við sáum svona aðeins í áramótaskaupinu. Að sjálfsögðu trúðum við því ekki að Hemmi Gunn væri þar aftur upp risinn, það er frekar ómögulegt, en það er hægt að setja slíkan tilbúning í ýmsar aðrar aðstæður, setja það fram í formi gamalla myndbanda jafnvel sem dúkka upp og geta varpað ýmsu ljósi, nýju ljósi, óraunverulegu ljósi, á líf fólks, einhver gömul VHS-spóla sem fannst og eitthvað svona dularfullt og því um líkt sem getur valdið alls konar usla. Þetta er sem sagt 1. gr.

2. gr. er einfaldlega sú að auðkenna skuli allar endurgerðir sem falla undir þessa aðferð að endurgera eitthvað sem annars gæti talist vera raunverulegt. Það skal ávallt fylgja tilvísun í upprunalegt verk sem er þá með endurgerðinni. Það eru ákveðin aukaáhrif af þessari grein sem ég myndi vilja spá um að verði áhugaverð. Við þekkjum það öll í tískumyndablöðum þegar það er verið að gera svona módel sem stilla sér upp og eru rosalega fín og falleg. Það er búið að breyta öllum myndunum en það er samt verið að sýna eins og þau séu raunveruleg og við eigum að trúa því að þetta sé raunveruleg manneskja, sem er það ekki. Ef eitthvað er þá gæti þetta jafnvel breytt því að þarna þarf að sýna þá upprunalegu myndina áður en henni var breytt. Það er líka stórt mál þegar allt kemur til alls.

Að lokum er kannski flóknasta greinin upp á það að gera að heimilt er án endurgjalds að gera rafræn eintök af verki sem hefur verið aflað með lögmætum hætti, enda sé tilgangur slíkra eintaka að útbúa sjálfvirkar gagnagreiningar eða vinna málfræðilegar og tölfræðilegar upplýsingar. Óheimilt er að nota slík eintök í öðrum tilgangi. Þetta snýst í rauninni um það að ég kveiki á sjónvarpinu og horfi á einhvern þátt sem ég verð rosalega uppnuminn af eða mér finnst rosalega merkilegur og ég ákveð að flytja og búa til ljóð af því að ég var svo hrifinn af því sem ég var að upplifa. Alla jafna þarf ég ekkert endilega geta þess hvaðan ég fékk þennan drifkraft til þess að semja ljóðið. Það er ekki nema að það sé í rauninni augljóst að það séu nægilega stórir hlutar nýja verksins sem vísa í gamla verkið, af því að ég er jafnvel að púsla saman einhverjum uppljómunum eða reynslu minna fyrri ára með þessu nýja sem ég var að nota til þess að vera drifkraftur til að búa til þá nýtt ljóð. Að sama skapi á gervigreind að geta nýtt alveg sömu heimild, þ.e. að geta horft á eitthvert verk, lært af því verki og búið til eitthvað nýtt ásamt öllu því sem hún kunni áður, einmitt nema náttúrlega það falli undir höfundalög eins og þau virka alla jafna. Ef það er raunverulega dágóður hluti af upprunalega verkinu í nýja verkinu, ákveðið stef, ákveðin fígúra eða eitthvað svoleiðis sem er augljóslega afrituð, þá þarf að geta höfunda og passa upp á höfundalög o.s.frv.

Þetta er, held ég, mjög nauðsynlegt frumvarp þegar allt kemur til alls og við þurfum að hugsa aðeins um það sem er að fara að gerast á næstu árum á þessum vettvangi. Evrópusambandið er að fara að samþykkja gervigreindarregluverkið sitt, væntanlega núna í apríl, þar sem komið er inn á hluta af þessu hérna, þannig að við munum hvort eð er þurfa að taka það upp, upp á það að gera, en einnig í miklu stærra samhengi þá er t.d. forstjóri OpenAI, Sam Altman, að kalla eftir fjármögnun í rauninni til þess að tryggja ákveðna gervigreindarörugga framtíð, má orða það sem svo, þ.e. framleiðslan á þeim tækjum og tólum sem við notum til að búa til gervigreindina, örflögum, örgjörvum og þess háttar, er flókin eins og er og fjármögnunin snýst um að tryggja í rauninni þá innviði sem þarf til að útvega þann vélbúnað, og hugbúnað svo sem líka, til að ná góðum árangri með gervigreindinni. Upphæðin sem hann er að biðja um er 5–7 trilljónir dollara. Þegar maður reynir að setja það í eitthvert samhengi hvers konar upphæð það er í íslenskum krónum eru það milljón milljarðar. Það segir manni ekki neitt. Það eru fjárlög íslenska ríkisins í 75 ár. Hvað er lýðveldi Íslands gamalt, 80 ára, er það ekki, eitthvað svoleiðis? Jú, 80 ára í ár. Þetta er nokkurn veginn lýðveldissaga íslenska ríkisins sem þarf í fjármögnun til þess að tryggja góða framtíð í rauninni með gervigreind. Þetta heppnast ekki sjálfkrafa. Kannski vitna ég bara í að einhvers staðar verða vondir að vera o.s.frv. Internetið kom og skilaði gríðarlegum framförum en líka áskorunum. Gervigreindin mun gera það líka og áskoranir eru risastórar og þetta frumvarp nálgast í rauninni augljósustu vandamálin sem við ættum að grípa strax áður en það er tilefni til eða meira tilefni til. Ég vonast til þess að nefndin grípi þetta tækifæri til þess að rúlla þessu í gegn og við verðum á undan Evrópusambandinu.