154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

höfundalög.

624. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Já, og gæti orðið enn þá flóknara með einhvern sem lést árið 1700 og eitthvað og á ansi marga afkomendur, þannig að vissulega mætti kannski skilgreina þetta betur eins og bara með beina erfingja eða eitthvað þess háttar, veit ekki hvort það hjálpar. Kannski er betra að hafa þetta bara einfaldlega afkomendur og ef einhver þarf þá að leita til allra þá smám saman þynnist út hverjir geta gefið samþykki um slíkt, sem ég held að sé bara jákvætt. Ef það eru einmitt bara erfingjar þá eru það ekki erfingjar erfingja heldur og þess háttar. Það má alveg skilgreina það betur í nefndaráliti, ég skil það svona dálítið eftir, en uppleggið er einmitt bara afkomendur sem eru þá afkomendur allir. Ég held að það sé ágætisviðmið en nefndin má endilega skoða þetta betur og umsagnaraðilar endilega líka koma með aðrar tillögur sem hægt er að íhuga. Þetta er flókið og þetta er viðkvæmt og mér finnst þurfa að vera háar kröfur á þessu af því að þetta varðar einmitt bara þau tilfelli þar sem verið er að gera einhvern raunverulegan. Allt annað er enn þá mjög opið og aðgengilegt sem slíkt.