154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa.

130. mál
[18:16]
Horfa

Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni fyrir hans andsvar og einnig fyrir að vera meðflutningsmaður á þessari tillögu sem ég er sammála þingmanninum að sé góð og ekki síður mikilvæg fyrir samfélagið allt. Ég ætla ekki að reyna að setja mig í stöðu einhvers sérfræðings hvað greiningar og slíkt varðar en ég held að það sem er mikilvægast í þessu sé einmitt það sem ég nefndi í framsögu minni, að öll sú þekking sem nú þegar er til staðar sem er, eins og ég nefndi, á mismunandi stöðum í kerfinu, eins og oft er sagt, sé dregin saman og sett á einn og sama stað. Það er nú bara þannig og ég hef heyrt það víða þegar ég var að vinna að þessu máli og ég þekki það auðvitað sjálfur að það getur verið erfitt fyrir fólk og aðstandendur þess að átta sig á og fá heildaryfirsýn yfir hvað er í boði og hvaða þjónusta er til staðar hjá ríki og sveitarfélögum, einmitt með það að markmiði að auka lífsgæði þessa fólks og gera það að virkari þátttakendum í samfélaginu með því m.a. að rjúfa þessa félagslegu einangrun. Það er auðvitað fyrst og fremst markmiðið með þessari tillögu. En auðvitað er það líka rétt hjá hv. þingmanni að einhverfa er sjálfsagt jafn misjöfn og við erum mörg, getur verið á öllum stigum og auðvitað eru margir virkir þátttakendur í okkar samfélagi. En ég held að með stofnun sem þessari þá getum við aukið lífsgæði þessa fólks enn frekar.