154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

barnalög.

132. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, er varðar rétt til umönnunar barna. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Bjarni Jónsson, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Frumvarpið inniber það að við 1. gr. 2. mgr. 28. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Veikt eða slasað barn skal eiga rétt á umönnun foreldra.

Það er eiginlega dálítið súrrealískt að segja akkúrat svona því að auðvitað gerum við bara ráð fyrir því að veik og slösuð börn njóti umönnunar foreldra sinna. Það er búið að flytja þetta mál áður, fyrst á 151. þingi en síðan á 152. og 153. þingi og hafa borist við það umsagnir sem hafa verið talsvert jákvæðar. Það er sem sagt verið að leggja hér til að sérstaklega verði kveðið á um það í barnalögum að í forsjárskyldu felist að veikt barn eða slasað barn eigi rétt á umönnun foreldra sinna. Samhliða þessu flutti ég þingsályktunartillögu sem kveður á um að félags- og vinnumarkaðsráðherra verði falið að koma á fót starfshópi til að kanna hvernig foreldrum barna verði gert kleift að rækja þessa skyldu með samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins eða með setningu reglna á þeim vettvangi.

Á fundi í velferðarnefnd í morgun tókum við það mál einmitt fyrir og fengum á fund okkar Umhyggju og Þroskahjálp þar sem mikil áhersla var lögð á ekki síst það að foreldrar hafa jafnvel þurft að taka af eigin veikindarétti til að geta verið heima með barni sem þarfnast sérstakrar umönnunar umfram það að vera bara lasið. Mikil áhersla er lögð á að þetta nái fram að ganga og ég vona svo sannarlega að það verði til þess að þessi hagsmunasamtök ýti á að þetta verði tekið til umræðu í kjarasamningum því að hvergi annars staðar getur þetta komið inn.

Á undanförnum árum hefur umræða um rétt og réttindi barna farið vaxandi. Þetta má m.a. rekja til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem við nefnum gjarnan barnasáttmálann. Samningur sá var undirritaður af Íslands hálfu 26. janúar 1990 og var fullgiltur 28. október 1992. Hann öðlaðist síðan gildi hér á landi 27. nóvember 1992. Rúmum tveimur áratugum síðar öðlaðist samningurinn lagagildi með lögum nr. 19/2013. Réttur barns til samvista við foreldra og til umönnunar telst til mikilvægustu réttinda sáttmálans og er einn af hornsteinum hans. Í því sambandi má benda á að samningurinn leggur m.a. þær skyldur á aðildarríkin að tryggja réttindi veikra og slasaðra barna en frumvarp þetta ásamt fyrrgreindri þingsályktunartillögu miðar að því að tryggja betur að þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu verði fullnægt.

Forsjá barns er eitt af meginatriðum barnaréttar en á henni byggjast lagatengsl barns við foreldra sína eða aðra þá sem fara með forsjána. Forsjá barns snýst fyrst og fremst um ábyrgð, skyldur og réttarstöðu foreldra. Sá réttur felur annars vegar í sér rétt foreldra til að taka ákvarðanir um uppeldi barns og hins vegar rétt barns til að njóta forsjár foreldra sinna. Sá sem fer með forsjá barns, hvort sem um er að ræða foreldri eða annan sem fer með forsjána, hefur því víðtækar skyldur gagnvart barninu. Hlutverk foreldra er í mörgum tilfellum fest í lög og má hér einkum benda á 28. gr. barnalaganna.

Hlutverk foreldra og forráðamanna er víðfeðmt og verður aldrei upp talið til hlítar í lögum. Við sem flytjum þessa tillögu teljum þó að leggja verði sérstaka áherslu á rétt barns til að njóta umönnunar foreldra eða forráðamanna þegar það er veikt eða slasað. Þótt þessi réttur sé þegar fyrir hendi kemur hann hvergi beint fram í lögum og er lagt til að úr því verði bætt.

Tilefni þess að árétta þennan rétt veikra og slasaðra barna í lögum er að rétturinn til að vera með og sinna veiku eða slösuðu barni hefur fyrst og fremst verið réttur foreldris eða þess sem fer með forsjána frekar en að vera réttur barnsins sjálfs. Í því sambandi má benda, eins og ég sagði áðan, á að kjarasamningar á íslenskum vinnumarkaði hafa í langflestum tilvikum haft að geyma ákvæði um rétt foreldra til að sinna veikum börnum og þannig er rétturinn tengdur starfi og ráðningarsambandi forsjáraðila og vinnuveitanda.

Það kom einmitt fram á þessum fundi í morgun að það væri mjög oft undir bara velvild vinnuveitandans komið hvort fólk gæti tekið fleiri frídaga en í rauninni kjarasamningar kveða á um. Með því að mæla fyrir um þennan sjálfstæða rétt barnsins er því gert ráð fyrir að búið verði svo um hnútana á vinnumarkaði að rétturinn verði virtur og þannig tryggður hverju og einu barni, þannig að þegar þú ert búinn að vera heima með eitt veikt barn verðir þú ekki búinn með allan rétt til að vera heima með öðru, þriðja og fjórða eða hvað þau eru nú mörg. Eins og málum er nú háttað getur foreldri sem á fleiri en eitt barn þurft að deila réttindum milli barna sinna. Einbirni sem veikist eða slasast og á tvo foreldra á vinnumarkaði er því í mun betri stöðu og gæti átt rétt á 20–30 dögum með foreldrum sínum á meðan veikt eða slasað barn úr systkinahópi sem deila þarf dögum gæti aðeins notið fáeinna daga ef aðstæður haga því þannig að systkini viðkomandi hafi einnig orðið veik eða þá að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að þau verði veik síðar á árinu.

Munurinn á réttindum barna getur því verið umtalsverður og á sama hátt geta möguleikar foreldris á að sinna börnum sínum verið mjög mismunandi. Réttindin eru því ekki aðeins réttur foreldra á launuðu leyfi úr vinnu til að annast veikt barn heldur fremur réttur barnsins til að njóta þeirrar umönnunar sem það þarfnast.

Svo sem áður greinir er samhliða frumvarpi þessu lögð fram tillaga til þingsályktunar um skipun starfshóps sem kanni hvort skilgreina eigi á vinnumarkaði rétt foreldra eða þeirra sem fara með forsjána til að annast veikt eða slasað barn með tilliti til fjölda barna og mögulegar útfærslur á því fyrirkomulagi með tilliti til launamissis foreldris, leyfis frá störfum eða vinnutaps og réttinda á vinnumarkaði. Er þessi leið farin þar sem skyldur og réttindi á vinnumarkaði eru aðallega skilgreind, eins og ég sagði áðan, í kjarasamningum og því talið rétt að aðilar semji um þau sín á milli. Þar sem um er að ræða tvenns konar réttindi, annars vegar rétt veiks eða slasaðs barns til umönnunar foreldris og hins vegar rétt starfsmanns til að annast veikt eða slasað barn, þykir rétt að fara þessa leið. Ég árétta hér að það er mikilvægt til þess að sem best samræmi sé á milli þessara réttinda.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta og legg til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.