154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjármögnun kaupa ríkissjóðs á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

[10:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Hér á eftir mun fara fram 2. umræða frumvarps til laga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík og er það vel og ánægjulegt að þinginu hafi tekist að afgreiða þetta mál hratt og vel þannig að ganga megi frá kaupum íbúðarhúsnæðis í Grindavík sem allra fyrst gagnvart þeim sem það kjósa.

Ég vil nýta þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra út í fjármögnunina á þessum aðgerðum vegna þess að ég er ekki alveg að skilja hvers vegna ríkisstjórnin velur þá leið sem hún velur til að fjármagna þessar aðgerðir og vísa þar í bls. 21 í frumvarpinu, í greinargerðina í kafla 6.5, Áhrif á húsnæðisverð, vexti, verðbólgu o.fl., en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Frumvarpið felur í sér verulega tilfærslu verðmæta úr opinberum sjóðum til eigenda þess húsnæðis sem það nær til. Í þessu felst að aðhaldsstig opinberra fjármála verður slakara en ella. Í stað þess að hafa áhrif til lækkunar verðbólgu og vaxta, líkt og gert var ráð fyrir í samþykktum fjárlögum 2024, verða áhrif ríkisfjármálanna á þessar stærðir allt að því hlutlaus á árinu 2024 nema ráðstöfunin verði fjármögnuð með hækkun skatta eða lækkun útgjalda, líkt og nánar er fjallað um hér aftar.“

Það er reyndar ekkert fjallað nánar um þetta hér að aftan þannig að það hefur kannski gleymst að setja það inn. Hvers vegna var ekki farin sú leið að fjármagna þessar aðgerðir, t.d. með sértækri skattheimtu eins og hækkun fjármagnstekjuskatts, bankaskatts, hvalrekaskatti, svo að við tökum nokkur dæmi um skatta sem gætu slegið á þensluna og þar með unnið með markmiðum ríkisstjórnarinnar um að vera eitthvað annað en í besta falli hlutlaus þegar kemur að því að tækla verðbólguna? Það vantar rökstuðning fyrir þessu í greinargerð með frumvarpinu þrátt fyrir loforð þar um. Ég óska því eftir svörum ráðherrans við þeim rökum.