154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjármögnun kaupa ríkissjóðs á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

[10:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg rétt að það aðhald sem er í fjárlögum 2024 í raun þurrkast út við þessa aðgerð að óbreyttu. Við erum að vinna fjármálaáætlun til næstu ára og samspil áhrifa af þessari aðgerð og aðkoma okkar að kjarasamningum, langtímakjarasamningum, kallar á endurskoðun í uppfærðri eða nýrri fjármálaáætlun. Ef við meinum það að við viljum vera með ríkisfjármálin þannig að þau styðji við verðbólgumarkmið Seðlabankans og að við náum árangri í því stóra verkefni, sem við erum öll sammála um að vilja gera, þá mun það kalla á fórnir. Ég veit að þingmenn hafa misjafnar skoðanir á því hvernig eigi að færa þær fórnir. Á að láta fólk og fyrirtæki með beinum hætti, þ.e. með skattahækkunum, bera þær uppi eða getum við með öðrum hætti minnkað útgjöld eða losað um eignir þannig að við getum sagt að ríkisfjármálin séu að styðja við þetta markmið? Út á það gengur vinnan við fjármálaáætlun. Ég get alveg sagt að þegar við erum með aðhald og það fer í slaka og svo koma viðbótarútgjöld, mögulega töluverð, vegna aðkomu stjórnvalda að kjarasamningum, til viðbótar síðan við öll þau verkefni sem hér eru á borðum — sum fela einfaldlega í sér veikleika og kalla á aukin útgjöld, önnur þar sem við erum að innleiða regluverk eða það koma bara ný verkefni upp — þá verðum við einfaldlega að endurskoða ákveðin útgjöld. Það eru nokkrar leiðir í því. (Forseti hringir.) Það er hægt að hagræða með almennum hætti. Það er hægt að losa um eignir sem er þá auðvitað einskiptisaðgerð, og það er hægt að hækka skatta. (Forseti hringir.) Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að leggja langmesta áherslu á það að stokka upp ríkisrekstur og minnka útgjöld ríkisins.