154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjármögnun kaupa ríkissjóðs á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

[10:39]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. En enn að fjármögnuninni. Nú ákveður hæstv. ráðherra að taka lán fyrir þessu frekar en að afla tekna til þess að geta farið í þetta og ég velti fyrir mér hvort það sé skynsamleg ráðstöfun. Það er kannski það sem ég er einna helst að velta fyrir mér, sér í lagi vegna þess að minnst er á það í greinargerðinni með frumvarpinu að þetta valdi því einmitt að ríkisstjórnin skili enn og aftur auðu þegar kemur að því að takast á við verðbólguna. En gott og vel, sjáum hvað setur í fjármálaáætlun.

Ég vildi spyrja um hinn þáttinn af fjármögnuninni sem snýr að því að taka innan úr náttúruhamfaratryggingasjóði stórar fjárhæðir enda sé þess gætt að það komi ekki niður á rekstrarhæfi og gjaldþoli stofnunarinnar, eins og segir í greinargerðinni. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvernig er í raun hægt að taka nokkuð út úr honum án þess að það komi niður á gjaldþoli stofnunarinnar sem nú þegar þarf að greiða a.m.k. 10 milljarða í (Forseti hringir.) tjónabætur og væntanlega eitthvað fleira. Erum við ekki að stefna framtíðarviðnámsþoli okkar gagnvart náttúruhamförum í tvísýnu með því að koma svona fram við þennan sjóð (Forseti hringir.) sem er ekki ætlað að bæta annað en það sem verður fyrir tjóni út af náttúruhamförum?