154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjármögnun kaupa ríkissjóðs á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

[10:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Hér er um að ræða skammtímaáfall. Þar af leiðandi eru í mínum huga rök fyrir því að dreifa því yfir tíma. Varðandi þá útfærslu að nýta náttúruhamfaratryggingar að hluta til þess að fjármagna þessa aðgerð þá liggur líka fyrir að það verður líklega og hefur nú þegar orðið tjón sem ekki er búið að meta og mögulega verður frekara tjón sem náttúruhamfaratryggingar munu þurfa að standa undir. Þá er spurning um útfærslu á því hvernig uppgjör verður á þeim fjármunum sem fara inn í félagið og þá frekara tjóni sem verður. Endurtryggjendur, líklega fyrst og fremst, munu bæta það tjón en það er spurning hvernig uppgjörið verður innan félagsins, hvort hægt verður að færa það þannig að náttúruhamfaratryggingar fái það með einhverjum hætti til baka. Það þarf að vinna.

Síðan tel ég að þetta áfall og það verkefni sem við stöndum frammi fyrir kalli á heildarendurskoðun á því hvernig við fjármögnum náttúruhamfarir vegna þess að við erum með ofanflóðasjóð og Náttúruhamfaratryggingu Íslands og það er þarna gat vegna þess tjóns sem við erum að verða fyrir núna og við þurfum einfaldlega að endurskoða það heilt yfir.