154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundið eftirlit á innri landamærum.

[10:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um hin opnu landamæri sem eru á Íslandi í dag. Árið 2022 voru umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi, án Úkraínu, í þriðja sæti hlutfallslega þegar kemur að fjölda þeirra í Evrópu. Það var einungis Kýpur með 2.390 umsóknir á hverja 100.000 íbúa og Austurríki með 2.188 umsóknir á hverja 100.000 íbúa. Ísland var með 581 umsókn á hverja 100.000 íbúa. Undanfarin ár hefur Ísland tekið við áttfalt fleiri umsóknum um alþjóðlega vernd en Danmörk, Noregur og Finnland eftir að hin svokallaða þverpólitíska löggjöf um málefni hælisleitenda var samþykkt á Alþingi árið 2016. Þar varð stökkbreyting á fjölda þeirra sem sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi. Í hittiðfyrra, árið 2022, sóttu 4.520 einstaklingar um alþjóðlega vernd á Íslandi, 4.155 í fyrra, árið 2023. Ég tek fram að í Vestmannaeyjabæ búa 4.300 manns. Við getum ekki tekið á móti heilu bæjarfélagi á hverju einasta ári. Við getum ekki tekið á móti hælisleitendum, umsóknum sem eru meira en 1% af íslensku samfélagi. Árlegur kostnaður skattgreiðenda vegna þessa hefur verið um 35 milljarðar króna með tilheyrandi álagi á allt stoðkerfi samfélagsins sem stendur þegar á brauðfótum. Árlegur kostnaður málaflokksins er jafn hár og rekstrarkostnaðar allra heilsugæslustöðva á landinu. Einnig myndi það nægja til árlegra útgjalda til rekstrar allra lögregluembætta landsins eða til að fjármagna tæplega tvisvar sinnum allt viðhald gatnakerfis landsins.

Spurning mín til hæstv. utanríkisráðherra er eftirfarandi: Í reglum Schengen-samstarfsins hefur frá upphafi verið að finna ákvæði um að heimila tímabundna upptöku eftirlits á innri landamærum þátttökuríkja í ákveðnum tilvikum. Í dag nýta átta Schengen-ríki þessa heimild. (Forseti hringir.) Það eru Þýskaland, Austurríki, Pólland, Ítalía, Slóvenía, Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Frakkland. (Forseti hringir.) Er ekki kominn tími til þess að Ísland geri það nákvæmlega það sama, að taka upp tímabundið innra eftirlit á innri landamærum vegna þess gríðarlega fjölda sem er að koma til landsins?