154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

Gjaldtaka á friðlýstum svæðum.

[11:11]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og sömuleiðis þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessa umræðu sem er mjög mikilvæg. Hv. þingmaður kemur hér með nokkrar spurningar sem ég ætla að reyna að svara, en ég vildi aðeins ræða þetta almennt. Fyrst spyr hv. þingmaður hvaða viðmið ráðherra telji við hæfi að ráði því hvort hefja skuli gjaldtöku af friðlýstu svæði eða einstaka stöðum þess. Eitt af viðmiðunum á að vera að gjaldið sé tengt þjónustunni. Þannig er það í lögum sem við koma umsjónarstofnun svæðanna. Í lögum um náttúruvernd er kveðið á um að hægt sé að taka gjald fyrir þjónustu á náttúruverndarsvæðum. Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð kemur fram að í reglugerð megi ákveða að taka gestagjöld innan þjóðgarðsins fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu til að mæta kostnaði við þjónustu og eftirlit með dvalargestum. Í lögum um Þingvallaþjóðgarð segir að í reglugerð megi ákveða að taka gestagjöld innan þjóðgarðsins fyrir veitta þjónustu og dvöl þar til að mæta kostnaði við þjónustu og eftirlit með dvalargestum.

Viðmiðið í dag er sem sagt veitt þjónusta á svæðunum en í ljósi þess að svæðin eru mörg hver undir álagi vegna ágangs ferðamanna væri eðlilegt að huga að því að gjaldtöku megi einnig nýta til stofnframkvæmda á svæðunum sem þannig gæti nýst til að bregðast við álagi á svæðinu, því að markmiðið hlýtur alltaf að vera að koma í veg fyrir að skemmdir verði á náttúru landsins. Eins og hv. þingmaður vísaði til þá eru þetta verðmæti sem verða sífellt verðmætari og 90% ferðamanna, það kemur fram í skoðanakönnun eftir skoðanakönnun, koma hingað út af þessu.

Hins vegar þurfa menn að bregðast við og líka að sýna fyrirhyggju. Náttúruperla getur mjög hratt orðið að drullusvaði. Ég ætla að nefna eitt dæmi, Fjaðrárgljúfur. Fyrir nokkrum árum var það þannig að eigendur þess, sem eru fjölmargir, voru bara að synda í gljúfrinu og nýttu það þó að einhverjir ferðamenn kæmu. Það var einn aðili sem kom, ég held að hann heiti Justin Bieber, og tók mynd af sér. Hann er með gríðarlega mikið af fylgjendum og þetta breytti öllu. Ef það væri ekki núna landvarsla á svæðinu yrði ástandið fljótt mjög alvarlegt. Þar höfum við t.d. náð samningum við aðila sem eru að byggja upp ferðaþjónustu um að þeir greiði kostnaðinn af landvörslunni.

Svo er spurt hversu stórt hlutfall af fjárheimildum einstakra friðlýst svæði sé til komið vegna sértekna af innheimtu þjónustugjalda. Þingvallaþjóðgarður er með 78%, Vatnajökulsþjóðgarður 44% og Dyrhólaey með 31%. Síðan er byrjað að taka salernisgjöld við Hverfjall sem ganga upp kostnað landeigenda við þrif og viðhald salerna. Annar kostnaður vegna svæðisins er búinn af Umhverfisstofnun, svo sem landvarsla og viðhald innviða. Nú kynni einhver að segja: Bíddu, af hverju er þessi munur milli Þingvallaþjóðgarðs og Vatnajökulsþjóðgarðs? Þingvallaþjóðgarður er náttúrlega í sérstakri stöðu. Þetta er svolítið eins og komuverslunin í flughöfninni þegar kemur að ferðamönnum. Það má líka alveg spyrja sig hvort það sé eðlilegt, því að þetta er búið að vera ferðamannastaður síðan 930, að skattgreiðendur séu að greiða með rekstrinum á hverju einasta ári. Þetta er partur af Gullna hringnum sem við settum af stað þegar, held ég, Kristján IX. kom hingað og það er gríðarlegur hagnaður af hinum tveimur stöðunum. Hins vegar er það alltaf þannig að annaðhvort greiða skattgreiðendur eða þeir sem njóta og það hefur verið stefna mín að auka hlutfall ferðamanna af augljósum ástæðum, því að náttúruvernd er líka hlutur sem er eilífðarmál og við munum aldrei klára þann málaflokk.

Svo er spurt hvað ég telji eðlilegt hlutfall sértekna til rekstrar friðlýstra svæða í samhengi framlaga af hálfu hins opinbera og hvort það gildi eitt og sama viðmið fyrir öll friðlýst svæði á landinu. Það er mikilvægt að hafa í huga, eins og kom hérna fram, að svæðin eru misjöfn. Sum eru fáfarin en önnur eru bara á allt öðrum stað og ég nefndi þarna þjóðgarðinn að Þingvöllum. Það er þó mikilvægt að sértekjurnar ráði ekki stefnumótun staðarins heldur séu verndarhagsmunir á svæðinu ávallt í forgangi.

Síðan er spurt um sérstakt komugjald, hvort mér þykir það vera góð hugmynd. Mér finnst það vera slæm hugmynd. Ég er ekki mikill talsmaður þess að útdeila peningum úr sjóðum hins opinbera. Það er erfitt verkefni og það er miklu skynsamlegra að þeir aðilar, og þá heimamenn, komi að því. Það er í nýju frumvarpi mínu, sem er núna í þingflokkum Framsóknar og Vinstri grænna, skerpt á þeirri reglu að heimamenn hafi um þá þjóðgarða að segja sem eru innan þeirra vébanda vegna þess að þetta verður að gerast í góðu samstarfi við samfélagið. Staðarþekking er eitthvað sem verður aldrei (Forseti hringir.) ofmetið og þar sem þetta hefur gengið vel hefur það verið gert í góðu samstarfi heimaaðila (Forseti hringir.) og þeirra stofnana sem málið varðar. Það er mjög mikilvægt þegar kemur að sértekjum að menn hugsi þetta út frá (Forseti hringir.) forsendum viðkomandi svæða með bestu mögulegu þekkingu.