154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

Gjaldtaka á friðlýstum svæðum.

[11:40]
Horfa

Valgerður Árnadóttir (P):

Frú forseti. Þekking almennings um allan heim og áhyggjur af loftslagsmálum eru vaxandi. En í því felast líka tækifæri. Ísland ætti að verða það land sem fólk sem er umhugað um náttúruna sækir í að heimsækja. Gríðarleg tækifæri eru í því að bjóða upp á vistvæna ferðamennsku og þá þarf uppbygging við okkar náttúruperlur að taka mið af því á þann máta sem hvetur ferðamenn til að virða náttúru okkar og ganga vel um. Þegar ferðamenn þurfa að greiða fyrir þjónustu og hún er aðgengileg og til fyrirmyndar þá eru þeir líklegri til að bæði njóta jákvæðrar upplifunar af heimsókn sinni og að ganga vel um.

Náttúruverndarsamtök á Íslandi hafa áhyggjur af stöðu málaflokksins og þá sérstaklega vegna ágangs ferðamanna á friðlýst svæði. Á nýafstöðnum þjóðfundi sendu þau frá sér ályktun þar sem þau kalla eftir því að náttúran fái sterkara umboð í samfélaginu. Þau brýna nauðsyn þess að stofna embætti umboðsmanns náttúrunnar. Það má álykta að sú krafa sé til komin vegna þeirrar óánægju, sem einnig kemur fram í ályktuninni, með að sami ráðherra fari með umhverfis- og orkumál. Þetta telja þau ekki ákjósanleg stöðu fyrir náttúru Íslands og brýna mikilvægi þess að hafa öflugan ráðherra sem hafi umhverfisvernd að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Sama má segja um ferðamennsku. Hana þarf að takmarka að einhverju leyti og byggja upp með vernd náttúrunnar í fyrsta öðru og þriðja sæti.