154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem ég er kannski einna helst að reyna að fá fram með minni spurningu um eftirfylgni var þessi bókun sem við settum inn í fundargerð um að við myndum taka málið til skoðunar 1. júní, eitthvað svoleiðis, í síðasta lagi, til að tryggja að við séum alveg með á nótunum ef það þarf að framlengja í þessu úrræði. Það væri bara ágætt ef framsögumaður málsins gæti staðfest þann skilning minn hér í síðara andsvari.

Síðan vildi ég vekja athygli framsögumanns á atriði sem ég var bara að átta mig á núna og það eru ákveðnar afleiddar afleiðingar af því að við ákváðum að lengja frestinn og lengja gildistímann á þessu ákvæði fram í júní. Við lengjum skiljanlega frestinn sem fólk hefur þá til að sækja um þetta úrræði. Þetta er ársfjórðungur, þrír mánuðir, sem við erum að framlengja þetta úrræði um og umsóknina sem því nemur. Það sem hins vegar gleymdist mögulega að færa til er hversu lengi fyrirtækjum er ekki heimilt að greiða sér út arð. Eins og það er í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að það megi ekki þangað til eitt ár er liðið frá því að viðkomandi naut stuðningsins. Nú er það sem sagt ársfjórðungi skemur, þannig að það eru bara þrír ársfjórðungar í staðinn fyrir heilt ár sem viðkomandi fyrirtæki má þá ekki að greiða sér út arð án þess að þurfa að greiða stuðninginn til baka. Ég velti því bara upp hvort þetta sé ekki yfirsjón af hálfu nefndarinnar, hvort við þurfum ekki að hnika til þessari dagsetningu til að þetta sé heilt ár. Ég biðst bara afsökunar á því hvað þetta kemur seint fram hjá mér en ég held að þetta hafi farið fram hjá okkur vegna þess að við vorum að vinna þetta mál mjög hratt, eins og raunar öll þrjú málin sem eru á dagskrá í dag. Þau hafa ekki fengið mjög ítarlega þinglega meðferð og þar af leiðandi kannski skiljanlegt (Forseti hringir.) að það komi upp svona atriði seint og um síðir eins og segja mætti. Ég velti fyrir mér hvort hv. framsögumaður sé sammála mér í því að við ættum að ganga í að laga þetta.