154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:24]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið. Það kemur mér ekkert á óvart hvernig hv. þingmaður talar, það er skynsemistónn í þessari athugasemd. En það sem mér finnst mikilvægast að horfa á í þessu er að við erum með heilt samfélag þarna undir. Við erum með heimili fólks sem er griðastaður fólks og við erum að mínu mati að reyna að horfa til þess að þetta verði, eins langt og það nær og er hægt, svolítið á forsendum fólksins, forsendum íbúanna sem þarna búa. Auðvitað væri hægt að segja: Heyrðu, við ætlum bara að loka þessu samfélagi. Þá værum við búin að eyða óvissu. Við gætum líka sagt: Við ætlum að opna, á ykkar ábyrgð. Þá værum við líka búin að eyða óvissu. En mér finnst við vera að nálgast þetta þannig að reyna að fara einhvern milliveg. Við erum með almannavarnir sem auðvitað ráðleggja en mér finnst við vera að reyna eins og hægt er að taka tillit til íbúa, taka tillit til fyrirtækja og að þessi ákvörðun, alveg sama hvort fólk muni og ætli sér að búa þarna til framtíðar, verði ekki tekin endanlega hér heldur verði tekin af íbúunum sjálfum. Mér finnst það mikilvægast. Það sem ég er að reyna að ná fram hér og segja er að þessari nálgun fylgir alltaf einhver óvissa. Ég held að það liggi í augum uppi. Ég er hins vegar algerlega sammála og tek undir með þingmanninum, af því að við erum hér með stórar ákvarðanir, háar upphæðir, að við verðum eftir fremsta megni að reyna að meta og sjá hvaða áhrif það hefur á ríkissjóð sem og aðrar ákvarðanir sem hér eru teknar.