154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:03]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að nefna þetta. Það er alveg rétt að umræðan í nefndinni hefur verið á þann veg að við erum hér með frumvörp sem við erum að vonast til þess að grípi sem flesta en gerum okkur á sama tíma grein fyrir því að meira þarf til og það hefur m.a. verið talað um lögaðila í því tilviki. Það frumvarp sem við ræðum hér á eftir, vonandi í dag og það er auðvitað mín ósk að það klárist einnig í dag ásamt þessu ágæta frumvarpi, er um uppkaup einstaklinga í Grindavík, þ.e. að ríkið stígi þar inn og tryggi að það sé hægt að koma til móts við einstaklinga þannig að þeir geti þá keypt sér eða komist í öruggt húsaskjól annars staðar. Sömu umræðu hefur svo sem verið fleygt varðandi lögaðila. Ég veit ekki til þess á þessum tímapunkti að slík vinna sé hafin en ég kann að hafa rangt fyrir mér þar. En ég tek undir með þingmanninum að ég held að það sé mjög mikilvægt því að þetta nefnilega hangir algjörlega saman. Auðvitað vitum við ekki hvernig þessu vindur fram í Grindavík en eins og ég nefndi í ræðu minni þá er um að ræða gríðarlega öflugt sveitarfélag með mjög stöndugum fyrirtækjum og við þurfum fjölbreytt úrræði til að grípa þau. Ég held að það sé miklu skynsamlegra fyrir ríkisvaldið og yfirvöld á hverjum tíma að huga að því að veita þann stuðning vegna þess að til lengri tíma mun það bæði verða gott fyrir samfélagið í Grindavík en ekki síður bara fyrir þjóðina að þau geti haldið áfram eins og mögulegt er.