154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var nú að hugsa á svipuðum nótum og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hér áðan. Það er ljóst að fólk er ekki að flytja til Grindavíkur næstu misserin. Grindavík er að vísu opin en þar er ekki rennandi kalt vatn, a.m.k. ekki nú um stundir, og þar eru innviðir ekki góðu lagi, þar er engin þjónusta við börn eða eldra fólk eða þjónusta af nokkru tagi, félagsleg þjónusta, þannig að það verður ekki eðlilegt samfélag í Grindavík næstu misserin, það vitum við. Einmitt í því ljósi, ætti þá ekki annaðhvort Alþingi að taka það í sínar hendur eða að sjá til þess að ráðherrar geri slíkt, að þau fari yfir þau fyrirtæki sem sannarlega geta ekki starfað nema það sé fólk í bænum, þ.e. í Grindavík? Auðvitað er hugsanlegt að fólk geti fært sig til. En væri ekki ástæða til að kortleggja það hvaða starfsemi það er sem hefur engar forsendur til að halda áfram í Grindavík þegar íbúarnir eru ekki á staðnum nema kannski örfáir og kanna hvað við getum gert til þess að mæta þeirra tekjufalli og tjóni?